135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Árneshreppur.

75. mál
[12:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsætisráðherra en hinn 15. mars árið 2003 samþykkti Alþingi samhljóða þingsályktun sem kvað á um að fela ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd er vinni að gerð tillagna um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi á Ströndum. Í nefndaráliti með tillögunni er hnykkt á, með leyfi forseta:

„Árneshreppur á Ströndum er á margan hátt einstök jaðarbyggð, landfræðilega afmarkaður, nokkuð þéttbýll, auk þess sem þar er að finna fjölbreyttar minjar um búsetu, atvinnuhætti og sögu þjóðarinnar.“

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er lagt til að þjóðin taki höndum saman og að gripið verði til aðgerða sem tryggi byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum. Þar er enn búið á um 15 heimilum og íbúar eru í kringum 50. Ég vil vitna í ummæli forsætisráðherra Davíðs Oddssonar á þinginu 19. nóvember 2003 en hann segir, með leyfi forseta:

„Ég tel að sú samstaða sem náðist um þingsályktunartillöguna hafi verið afar sérstæð í þinginu og mikilvæg þannig að ríkisvaldið í hvaða mynd sem það er statt hefur hvorki efni né ástæðu til að draga lappirnar hvað þetta mál varðar. Ég held einmitt að sú niðurstaða þingsins að álykta sérstaklega um þetta byggðarlag sýni einmitt þá sérstöðu og sé því ástæðulaust að draga ályktanir um önnur byggðarlög inn í það.“

Af hálfu ríkisstjórnarinnar var síðan skipuð nefnd sem skilaði tillögum sínum í nóvember 2004 um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi. Tillögur nefndarinnar kveða á um að aðgerðirnar verði skilgreindar sem tilraunaverkefni til fimm ára með sjálfstæðan fjárhag og sérstaka verkefnisstjórn. Það verði á ábyrgð ríkisstjórnar Íslands og falli undir forsætisráðuneytið. Forsætisráðuneytið skipi þriggja manna verkefnisstjórn sem beri ábyrgð á framkvæmd verkefnisins og þeim fjármunum sem veitt er til þess í nánu samráði við hreppsnefnd Árneshrepps og aðra heimamenn varðandi hugmyndir að einstökum verkefnum og framkvæmd þeirra. Í skýrslunni er tíunduð hugmyndafræðileg nálgun og bein verkefni sem vinna ber að.

Í umræðum á þinginu lýstu núverandi samgönguráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og iðnaðar- og byggðamálaráðherra miklum stuðningi við þetta mál. Þess vegna bíðum við nú eftir að þessu sé hrundið í framkvæmd á grundvelli þeirra tillagna sem hafa verð lagðar fram og samþykktar Alþingis. Því beini ég þeim spurningum til hæstv. forsætisráðherra:

Hvað líður framkvæmd þessara tillagna og hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til, til þess að standa þar með við vilja Alþingis hvað varðar sveitabúsetu í Árneshreppi á Ströndum?