135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Árneshreppur.

75. mál
[12:39]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp og ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir að hafa beint athygli iðnaðarmálaráðherra og byggðamálaráðherra sérstaklega að þessu. Ég get upplýst að ég hef átt viðræður við hv. þingmann um þetta mál.

Um þá skýrslu sem hæstv. forsætisráðherra vitnaði til er ég satt best að segja þeirrar skoðunar að í henni sé að finna margar óraunhæfar tillögur en þar er líka að finna tillögur sem eru raunhæfar og sem sjálfsagt er að skoða betur. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar laut að ferðamálum. Ferðamál munu líka koma undir byggðamálaráðuneytið, væntanlega um næstu áramót. Eins og kom fram bæði í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og hæstv. forsætisráðherra þá eru þarna góðir möguleikar í þeim málaflokki og ég get lýst því yfir gagnvart hv. fyrirspyrjanda að það mun ekki liggja á mér að reyna að tosa fram hlut þessa ágæta byggðarlags að því er þann málaflokk varðar.