135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Árneshreppur.

75. mál
[12:42]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil segja örfá orð í þessu sambandi og þá í fyrsta lagi að Árneshreppur er byggðarlag sem nýtur mikillar sérstöðu í sveitarfélagalitrófinu. Það er mjög afskekkt og vissulega er erfiðleikum háð að halda uppi búsetu þar en það skiptir gríðarlega miklu máli ef fólkið sem býr á staðnum er áhugasamt um að búa þar áfram og það vill svo til að það er þannig í þessu tilfelli. Ríkisvaldið hefur vissulega ákveðnum skyldum að gegna í sambandi við marga þætti málsins.

Það er hægt að líta á Árneshrepp sem einstakt fyrirbæri hér á landi og það held ég að ríkisstjórnin eigi að gera. Þó að allt sé takmörkunum háð, eins og kemur fram hjá hæstv. forsætisráðherra, og hér sé spurning um fordæmi og annað slíkt eru aðstæður Árneshrepps samt mjög sérstakar.