135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

174. mál
[12:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Íslendingar hafa lengi búið við einhæft atvinnulíf, það eru örfáir áratugir síðan útflutningur byggðist eingöngu á sjávarfangi og hin atvinnugreinin var landbúnaður. Eftir að tekin var ákvörðun um byggingu álvers í Straumsvík, sem kostaði vissulega nokkur átök, bættist iðnaður og iðnaðarvara við útflutning okkar og hefur hann unnið á síðan þannig að nú styttist í að útflutningur á áli eingöngu verði verðmætari en útflutningur á sjávarfangi.

Þegar Framsóknarflokkurinn kom í ríkisstjórn árið 1995 var allnokkurt atvinnuleysi á Íslandi og flokkurinn lagði mikla áherslu á að fjölga störfum. Því er óhætt að segja að það hafi orðið kaflaskil þegar ákveðið var að stækka álverið í Straumsvík og byggja nýtt álver á Grundartanga.

Á síðustu árum hafa menn gert sér betur grein fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga á veðurfar. Nú er svo komið að mjög fáir mótmæla því að loftslagsbreytingar hafi áhrif á veðurfar. Gott dæmi um alvarleika málsins er það að Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hlýtur Nóbelsverðlaun í ár fyrir baráttu sína gegn loftslagsbreytingum og fer afhendingin fram í Ósló 10. desember nk.

Sameinuðu þjóðirnar beittu sér fyrir því að gerður væri samningur á meðal þjóða um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og var undirritaður samningur um það, svokallaður Kyoto-samningur. Við Íslendingar eigum aðild að því samkomulagi sem gert var og gildir það fyrir árin 2008–2012. Í þeirri vinnu sem átti sér stað við undirbúning samningsins beitti ríkisstjórn Íslands, sem þá var við völd, sér fyrir því að tekið yrði tillit til þess í fyrsta lagi að Íslendingar höfðu þá þegar gengið í gegnum umbreytingar í upphitun húsa með hitaveituvæðingu 85% heimila í landinu, og í öðru lagi að tekið yrði tillit til þess að lítil hagkerfi sem nýta endurnýjanlega orku til að knýja stóriðjuver, gætu farið í slíkar framkvæmdir án þess að það teldist til útblásturs viðkomandi lands að öllu leyti. Þessar kröfur Íslendinga fengu hljómgrunn og við fengum ákveðinn kvóta sem er 1,6 millj. tonna.

Ástæða þess að þetta náðist fram er að sjálfsögðu sú að stjórnvöld annarra þjóða skildu þetta mál og áttuðu sig á mikilvægi þess að framleiða ál þar sem notuð er endurnýjanleg orka. Þetta var fortíðin en nú er það framtíðin sem skiptir máli. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra á þingskjali 187:

Hver er stefna ríkisstjórnarinnar hvað varðar svokallað „íslenskt ákvæði“ í Kyoto-bókuninni (loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna)?