135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

174. mál
[12:56]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra og lýsi yfir stuðningi við hana. Ég lít ekki svo á að um sé að ræða undanþágu frá þeim markmiðum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, heldur miklu frekar eins og fram kom í máli ráðherrans, útfærslu á leið að því marki. Íslenska ákvæðið sem svo hefur verið nefnt fékkst samþykkt vegna þess að það tókst að sannfæra þjóðir heims um að betra væri fyrir hnöttinn í heild að nota leiðina sem þar er stikuð en gera það ekki. Markmiðið og niðurstaðan með því að fara þessa leið er minni losun gróðurhúsalofttegunda en ella yrði. Þess vegna er ekki hægt að tala um þetta sem undanþágu heldur leið til að ná því markmiði sem menn setja sér og ég hygg að nokkuð góð pólitísk samstaða sé um.