135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

þorskeldi.

113. mál
[13:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra um þorskeldi: Hvernig hyggst ráðherra standa að því að efla þorskeldi hér á landi?

Ástæða þess að ég orða fyrirspurnina með þessum hætti er sú að ég tel að komið hafi fram hjá ráðherrum í ríkisstjórn að áhugi sé á því að efla þorskeldi í tengslum við niðurskurð sem á sér stað í veiðum á þorski. Við framsóknarmenn höfum lagt mikla áherslu á þetta og teljum að þarna sé einn möguleiki til að efla byggð sem ekki veitir af, m.a. með þann niðurskurð í huga.

Það þorskeldi sem nú er stundað í landinu er einkum tvenns konar. Annars vegar er veiddur smáfiskur og alinn upp í sláturstærð, um er að ræða 500 tonn sem hæstv. ráðherra úthlutar á hverju ári. Hins vegar er um það að ræða að seiði eru framleidd, og það er þá fyrst og fremst hjá fyrirtækinu ICECON, og alin í sláturstærð. Nokkur sjávarútvegsfyrirtæki hafa sýnt þessari atvinnugrein mikinn áhuga og margir halda því fram að við stöndum nú á ákveðnum tímamótum þar sem seiðaframleiðsla geti verið ákveðinn flöskuháls. Auk þess þarf náttúrlega að leggja mikla áherslu á kynbætur þannig að ekki taki lengri tíma en eitt og hálft ár að ala í sláturstærð. Ég hefði talið mikilvægt að hæstv. sjávarútvegsráðherra sendi út þau skilaboð að hann teldi að aleldi á þorski sé ein af þeim atvinnugreinum sem við Íslendingar ættum að leggja áherslu á til framtíðar. Ég hefði einnig talið að til greina gæti komið að ríkisvaldið stæði að uppbyggingu seiðaeldisstöðvar í samstarfi við útgerðarfyrirtæki sem gætu þá framleitt 10 milljónir seiða á ári. Þetta gæti þýtt að framleiðslan yrði 20–30 þús. tonn árlega. Til samanburðar má geta þess að í Noregi er nú slátrað 11 þús. tonnum af eldisþorski á ári hverju.

Nýlegar var staddur hér á landi forstjóri sjávarútvegs- og fiskeldisdeildar norsku rannsóknastofnunarinnar SINTEF sem er að nokkru leyti sambærilegt við Matís hér á landi. Hann var áhugasamur um samstarf við Íslendinga á þessu sviði og talaði um hve mikilvægt væri, til að halda þeim mörkuðum sem við höfum verið að vinna í þorskinum og miðað við samdrátt í veiðum, að koma sterkt inn með eldið. Norðmenn telja að þorskeldi gæti orðið af svipaðri stærðargráðu þar í landi og laxeldið er í dag en laxeldið skilar Norðmönnum 600–700 þús. tonnum á ári. Auðvitað þarf að fara yfir það og það gæti verið hlutverk stjórnvalda að finna út hvar sú atvinnugrein ætti best heima við strendur landsins.