135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

þorskeldi.

113. mál
[13:04]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu, sem ég held að sé gagnleg. Sannarlega er um að ræða atvinnugrein sem ég tel fulla ástæðu til að binda miklar vonir við. Það er hins vegar eðlilegast að þróun greinarinnar sé mótuð að frumkvæði atvinnugreinarinnar sjálfrar og með fulltingi og samstarfi við stjórnvöld.

Veiðar á þorski í Atlantshafi hafa dregist verulega saman á síðustu áratugum. Árið 1980 var aflinn 2 millj. tonna í Norður-Atlantshafi, 20 árum síðar var hann kominn niður í milljón tonn og enn hefur dregið úr aflanum á þessu ári, hann er áætlaður 750 þús. tonn. Eins og við vitum hefur verið tekin ákvörðun um að skera þorskafla niður í 130 þús. tonn á yfirstandandi fiskveiðiári hér á landi.

Á sama tímabili hefur fiskeldi í heiminum vaxið mjög hratt. Það er hins vegar mjög athyglisvert að flestir telja að komið sé að einhverjum endimörkum varðandi uppbyggingu fiskeldis á landi, menn verði í vaxandi mæli að horfa til fiskeldis í sjó. Við vitum að það er ekki einungis að veiðar á þorski hafi dregist saman heldur hefur eldi á ýmsum nýjum tegundum verið að vaxa og eldi á þorski hefur verið að festa nokkrar rætur, ef þannig mætti að orði komast, bæði hér á landi og í Noregi, Skotlandi og kannski víðar.

Í Noregi hefur áhugi á þorskeldi farið mjög vaxandi. Í fyrra var framleiðslan komin í 11 þús. tonn en á sama tíma var framleiðslan hér á landi um það bil 1.400 tonn. Tilraunir varðandi söfnun á villtum þorski til áframeldis í kvíum hér á landi hófust á Stöðvarfirði árið 1992. Síðan hefur umfang tilraunaeldis í þorski farið vaxandi eins og fram hefur komið. Eldisframleiðslan hefur að mestu leyti verið í höndum fárra sjávarútvegsfyrirtækja og byggist að langmestu leyti á áframeldi og eldi veiddra seiða. Niðurstöður þessa tilraunaeldis eru í stuttu máli þær að fyrirtækin telja rétt, í ljósi þeirrar reynslu sem þau hafa aflað sér, að næstu skref verði stigin með það að markmiði að framleiðsla í þorskeldi verði aukin verulega frá því sem nú er.

Ég held að ástæða sé til að vekja athygli á því að við höfum náð markverðum árangri á þessu sviði. Þorskeldið í landinu er farið að skipta verulegu máli, 1.400 tonn skipta auðvitað máli. Ég get vakið athygli á því að á Vestfjörðum, þar sem við getum sagt að á vissan hátt sé að verða til vagga þorskeldis í landinu, starfa að minnsta kosti 50 manns beinlínis við þorskeldið. Þorskeldið er hins vegar fjárfrek starfsemi, þorskeldið er starfsemi sem krefst mikillar þekkingar. Við vitum að almennt krefst eldi mjög mikillar þolinmæði og menn verða að hafa burði til að lifa af tíma þar sem tekjur eru ekki til staðar.

Þróunin hefur því orðið sú, eins og við vitum, að þorskeldið er nú fyrst og fremst starfrækt á mjög afmörkuðum svæðum og af tiltölulega fáum fyrirtækjum. Í upphafi voru þetta mörg fyrirtæki, nú er ekki svo. Ég hygg að í framtíðinni verði þorskeldið fyrst og fremst stundað af stórum og öflugum fyrirtækjum þó að hin minni verði auðvitað líka þátttakendur í því.

Það er alveg rétt, stjórnvöld hafa verið að veita ákveðinn stuðning við þessa atvinnugrein. Við höfum verið með sérstakan áframeldiskvóta, það hefur verið forsendan fyrir því sem hér hefur verið að gerast. Við höfum líka verið að styðja fjárhagslega við þessa atvinnugrein, m.a. í gegnum hinn svokallaða AVS-sjóð og í því sambandi höfum við sérstaklega beint sjónum að því að stuðla að kynbótum á þessu sviði. Við vitum að í öllu eldi skiptir þetta langmestu máli og þess vegna höfum við aðallega verið að horfa á kynbæturnar til þess að ná árangri. Við vitum að í laxeldinu hefur kynbótastarfið t.d. leitt til þess að tekist hefur að draga mjög úr kostnaði á hvert framleitt kíló. Þó að nú sé verð á kílói af framleiddum laxi miklu lægra en það var fyrir t.d. tíu árum er afkoman eftir sem áður mjög vel viðunandi á þeim stöðum þar sem árangur hefur verið bestur, t.d. í Noregi.

Hv. þingmaður spyr eðlilega: Hver eiga að vera næstu skref? Ég hef nú ákveðið að setja á fót starfshóp sem skipaður verði bæði fulltrúa stjórnvalda og atvinnugreinarinnar, fulltrúum úr þeirri atvinnugrein sem nú stundar þorskeldið, til þess að móta tillögur um næstu skref. Ég tel að við séum einfaldlega í þeirri stöðu núna að annaðhvort sé að hrökkva eða stökkva. Við höfum unnið mikla þróunarvinnu, við höfum náð árangri í kynbótum t.d. en nú þurfum við að taka ákvörðun um það hvort við séum tilbúin til að láta þessa atvinnugrein vaxa verulega. Þá verða að vera til staðar fjárhagslegar forsendur, við vitum að það er grundvallaratriði, og því held ég að mikilvægt sé að stjórnvöld og atvinnulífið sjálft komi að þessu verki.

Ég er sannfærður um að heilmiklir möguleikar eru til staðar í þessum efnum. Við megum ekki fyllast neinu gullgrafaraæði, þetta er erfitt starf og mikil þolinmæðisvinna. Í mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti á síðasta sumri er gert ráð fyrir fjármagni til að koma til móts við uppbyggingaráform (Forseti hringir.) og framtíð þorskeldisins. Ég held að það geti skipt okkur miklu máli á komandi árum.