135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

veiðar í flottroll.

153. mál
[13:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Herdís Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Á liðnu sumri var tekin mjög mikilvæg ákvörðun um niðurskurð í aflaheimildum í þorski. Farið var eftir tillögum Hafró um að skera niður aflaheimildir um tæplega þriðjung. Þessi ákvörðun var vitaskuld erfið, enda fyrirséð að hún mundi valda útgerðum og mörgum byggðarlögum verulegum búsifjum. Við slíkar aðstæður hljótum við að leita allra leiða til að tryggja að þorskstofninn nái fyrri styrk. Með hinni huguðu ákvörðun sjávarútvegsráðherra frá nýliðnu sumri hefur verið dregið stórkostlega úr veiðiálagi. En er það nægilegt? Á það endilega að vera svo að þær útgerðir og þau byggðarlög sem gera mest út á þorsk axli ein byrðarnar við uppbyggingu stofnsins?

Fleira getur haft áhrif á stofnstærð en veiðarnar eingöngu. Má þar nefna lífsskilyrði sjávar, hitastig og æti og enn fremur veiðarfæri og afkastagetu skipa. Mikilvæg fæða þorsksins, loðnan, hefur verið veidd á undanförnum árum í auknum mæli í flottroll. Flottrollið, eða flotvarpan, er búið þeim eiginleikum að það er lengi að veiða. Það er dregið á meiri hraða en fiskurinn syndir og stór hluti þess sem í trollinu lendir síast út úr því og enginn veit hvað um það verður. Hafró hefur nýlega verið að gera athuganir á veiðum með flottroll og er talið að allt að 60–80% af loðnunni sleppi út úr trollinu.

Á undanförnum árum hafa verið miklar umræður innan lands um hvort rétt sé að leyfa slík veiðarfæri sem trúlega valdi miklum skaða og notuð eru af öflugum skipum sem draga allan sólarhringinn á hvaða dýpi sem er. Mig langar til að vitna til viðtals við Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðing og einn helsta sérfræðing Hafró í loðnu en hann sagði í viðtali við Fiskifréttir í mars 2005 að hann teldi koma til greina að banna flottrollsveiðar í loðnu í nokkur ár í tilraunaskyni. Hjálmar telur áhrif flottrollsins á loðnuna geta verið tvenns konar, svo vitnað sé í viðtalið, með leyfi forseta, annars vegar að meira af loðnu fari forgörðum þegar veitt er með trolli en nót og hins vegar mikið ónæði fyrir fiskinn sem felst í því að meiri hluti loðnuflotans er kominn með flottroll sem dregið er allan sólarhringinn

Ég hlýt sömuleiðis að vekja athygli á umræðum um þessi mál á aðalfundi LÍÚ nú í lok október en þar er hvatt til aukinna rannsókna á loðnu, m.a. hvort veiðar í flotvörpu hafi áhrif á göngu loðnunnar og jafnframt að rannsökuð verði áhrif flotvörpunnar við síldveiðar. Vissulega er margt á huldu um áhrif flotvörpu en er ekki rétt að láta lífríkið og þorskinn njóta vafans? Þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram eftirfarandi spurningu til sjávarútvegsráðherra:

Telur ráðherra koma til greina að banna veiðar á síld og loðnu í flottroll við strendur landsins?