135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

skýrsla nefndar um flutningskostnað og jöfnun flutningskostnaðar á landsbyggðinni.

84. mál
[13:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra:

1. Hvernig hyggst ráðherra beita sér fyrir framkvæmd tillagna úr skýrslu nefndar um flutningskostnað, útgefinni af samgönguráðuneytinu árið 2003, þar sem fram kemur að heppilegasta leiðin til að jafna flutningskostnað sé að taka upp beina flutningsstyrki til þeirra atvinnugreina sem eiga undir högg að sækja staðsetningar sinnar vegna?

2. Með hvaða hætti öðrum hyggst ráðherra beita sér fyrir úrlausnum á jöfnun flutningskostnaðar á landsbyggðinni?

Frú forseti. Mér finnst mjög sanngjarnt að spyrja hæstv. núverandi samgönguráðherra um þetta mál því að svo oft hefur hann komið hér í ræðustól á undanförnum árum til að tala um hversu brýnt það sé að jafna flutningskostnað í landinu. Hann hefur skammað sitjandi ríkisstjórn fyrir sleifarlag í þeim efnum, sem ég hef reyndar tekið undir, og nú eru málin komin í hans hendur.

Ég vil þá vitna til þess að það stendur að vísu í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár að gert sé ráð fyrir jöfnun flutningskostnaðar á vöruflutningum til Vestfjarða upp á 150 millj. kr. tímabundna fjárveitingu þar sem gert er ráð fyrir að þær greiðslur komi til flutningsfyrirtækjanna en ekki beint til einstakra viðskiptavina og komi svo bónusafsláttur við þau kjör sem þar er um að ræða. Þetta er algjör stefnubreyting frá því sem verið hefur og það væri líka fróðlegt að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig það á að koma til framkvæmda.

Sú krafa sem hefur verið hvað sterkust úti um land er að gripið verði til aðgerða til jöfnunar á flutningskostnaði. Þær aðgerðir eru þekktar í nágrannalöndum okkar þar sem litið hefur verið á þetta sem eina brýnustu aðgerðina til að jafna búsetuskilyrði, atvinnuskilyrði o.s.frv. og þær aðferðir sem ég nefndi áðan og getið er um í skýrslunni frá samgönguráðuneytinu fyrir árið 2003 eru þekktar.

Ef við lítum aðeins á gjaldskrárnar getum við séð hversu gríðarlega mikill munur er á þeim. Ég er líka með skýrslu frá samgönguráðuneytinu um flutningskostnað þar sem þess er getið flutningur frá Reykjavík til Selfoss kosti 8.755 kr. á tonnið, 26.800 kr. til Patreksfjarðar, 34–35 þús. kr. til Ísafjarðar og 41 þús. kr. til Þórshafnar. Við sjáum því að fátt er brýnna en taka á þessari jöfnun fluningskostnaðar. Nú stöndum við frammi fyrir enn meiri hækkun á olíu og það kemur vafalaust (Forseti hringir.) fram í þessu. Að lokum væri líka fróðlegt að spyrja hæstv. ráðherra um Eimskip sem nú ætlar að fara að bæta rukkunina hjá sér og rukka fyrir heimakstur úti um land.