135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

skýrsla nefndar um flutningskostnað og jöfnun flutningskostnaðar á landsbyggðinni.

84. mál
[13:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það að mikilvægt er að leggja öfluga og góða vegi. En að öðru leyti var ræða hæstv. samgönguráðherra nánast bara uppskrift af ræðu fyrrverandi samgönguráðherra sem þáverandi þingmaður Kristján Möller deildi hart á fyrir aumingjaskap. Ég vona að hæstv. ráðherra falli ekki endalaust í þá sömu gryfju.

Það væri fróðlegt að vita hvernig á að taka á flutningsjöfnuninni til Vestfjarða með því að greiða til flutningsaðilans. Er það svo, eins og kom fram í skýrslunni sem samgönguráðuneytið lét vinna, að fullkomin einokun sé á flutningum til Vestfjarða og væri því hægt að taka þann eina aðila sem flytur þangað vörur og segja: Við skulum semja við þig um að þú lækkir þig aðeins. Þá biðjum við heldur um að við tökum upp ríkisskip og ríkið sinni flutningum.

Þessi aðferð hefur ekki gefist vel erlendis og ekki er mælt með henni. Ég hef ekki séð það neins staðar. En það að styrkja atvinnugreinina sjálfa, þau fyrirtæki sem þurfa að fá jöfnun á flutningskostnaði, hefur verið talin miklu betri leið. Ég á ekki gott með að sjá hvernig þessi leið verður útfærð. Það hefur jú verið bent á að fákeppni og nánast einokun ríki í flutningum á landi og sjó á Íslandi.

Ég vil ítrekað spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi sett sig inn í nýjar aðgerðir Eimskips þótt hann ráði ekki fyrirtækinu. Flutningar, hvort sem er á sjó eða landi, heyra jú undir hæstv. samgönguráðherra og í frétt er sagt frá því að Eimskip ætli að rukka fyrir heimakstur á landsbyggðinni. Eimskip er búið að gefa út gjaldskrá með verulegri hækkun og breytingu frá því sem áður var. Fyrirtækið getur þetta kannski í krafti einokunarstöðu sinnar. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. samgönguráðherra hvort hann hafi sett sig inn í það sem þar er að gerast því að þau mál heyra tvímælalaust undir hæstv. ráðherra.