135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

leigubílar.

137. mál
[13:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ármann Kr. Ólafsson) (S):

Hæstv. forseti. Að undanförnu hefur mikið verið rætt um neytendamál út frá mörgum sjónarhornum og víst er að ekki er vanþörf á. Íslenskir neytendur eru sennilega með þeim umburðarlyndustu í Vestur-Evrópu og þótt víðar væri leitað. Á það ekki aðeins við um matvöru, þótt dæmin séu mörg þar, heldur á þetta við á mun fleiri sviðum. Ekki ætla ég að fara yfir öll þau atriði heldur snúa mér sérstaklega að leigubílaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Þrátt fyrir að nokkurs konar kvóti eða einokunarkerfi ríki hvað varðar rekstur leigubíla þarf ekki að kvarta undan þjónustunni almennt séð og hefur hún um margt batnað á undanförnum árum. Engu að síður eru neytendur allt að því niðurlægðir þegar þá vantar þjónustu á ákveðnum tímum sólarhrings, um helgar og í tengslum við aðra frídaga árið um kring. Það má kannski segja að það sé ekki svo mikið mál á hlýjasta tíma sumarsins en á vetrum er þetta mjög stórt mál. Það gengur ekki að bjóða landsmönnum og gestum þessa lands, gestum höfuðborgarsvæðisins, upp á að fá ekki leigubílaþjónustu þegar líða tekur á nótt um helgar, slíkt ástand hefur varað allt of lengi. Nú er komið nóg, þessa þjónustu verður að bæta. Fram undan er mikill annatími í tengslum við skemmtanir í aðdraganda jóla, árshátíða og þorrablóta. Þessir atburðir fara allir fram á kaldasta tíma ársins og það verður að fara að bæta þá þjónustu sem í boði er á þessum tíma. Það gengur ekki að bjóða fólki upp á að húka í kulda og trekki í þeirri veiku von að með tímanum aumki einhver leigubílstjórinn sig yfir viðskiptavin og leyfi honum náðarsamlegast að setjast um borð.

Virðulegi forseti. Nú eru 560 leigubílaleyfi í umferð en samkvæmt núgildandi lögum eru engin skilyrði fyrir þjónustutíma leigubílstjóra að því frátöldu að í lögunum segir að sá sem stundar leigubílaakstur skuli hafa það að aðalatvinnu á svæðum sem telja meira en tíu þúsund manns. Þetta gengur einfaldlega ekki upp. Neytendur eiga að hafa þann rétt að besta mögulega þjónusta sé veitt á þeim tíma sem flestir óska hennar. Þá býður þessi takmarkaða þjónusta þeirri hættu heim að fólk freistist til þess að grípa eigin bifreiðar í þeirri trú að það komi ekki að sök í undantekningartilfellum að aka undir áhrifum. En því miður er það svo, virðulegi forseti, að allt of mörg umferðaróhöpp má rekja til þess að fólk keyrir undir áhrifum áfengis.

Mikil umræða hefur verið um opnunartíma skemmtistaða í miðbæ Reykjavíkur og ég býð ekki í það ef tekin verður upp sú regla að þeir skuli loka kl. 3 að nóttu til eins og borgaryfirvöld hyggjast nú þegar gera. Ef sú regla verður tekin upp munu allir flykkjast út á göturnar á sama tíma og þá stöndum við frammi fyrir enn meiri vanda. Af þessum sökum hef ég beint þeirri fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra hvort hann áformi að breyta lögum um leigubifreiðar til þess að mæta mikilli eftirspurn eftir leigubílum á mestu háannatímum sólarhringsins, um helgar og í tengslum við aðra frídaga.