135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

leigubílar.

137. mál
[13:49]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma með fyrirspurn um leigubifreiðamál. Hún hljóðar svo:

„Áformar ráðherra að breyta lögum um leigubifreiðar til þess að mæta mikilli eftirspurn eftir leigubílum á mestu háannatímum sólarhringsins, um helgar og í tengslum við aðra frídaga?“

Það er alveg ljóst að verulegt ójafnvægi er í eftirspurn eftir leigubifreiðum annars vegar um helgar, á næturnar og á einstökum frídögum og hins vegar á virkum dögum. Hér er á ferðinni vandamál sem nauðsynlegt er að skoða nánar og leita leiða til úrbóta. Tekin hefur verið ákvörðun um að ráðast í heildarendurskoðun á því regluverki sem um leigabílaakstur gildir og mun þetta vandamál verða skoðað nánar við þá vinnu. Líklegt er að m.a. verði kannað hvort fjölga þurfi leyfum með einhverjum hætti um helgar svo að hægt verði að þjóna á háannatímanum eða hvort hægt verði að ráða bót á þessu vandamáli með öðrum aðgerðum.

Í framhaldi af framsöguræðu hv. fyrirspyrjanda má geta þess að staðan er auðvitað sú að því fleiri bílar sem eru í leigubílaakstri, fleiri en 560 sem leyfi hafa, þeim mun verri verða rekstrarskilyrðin í greininni. Það leiðir svo hugsanlega til hærri notendagjalda og annars slíks. Það er því dálítið erfitt að finna jafnvægi hvað þetta varðar. Ég vil hins vegar líka nota tækifærið og segja að við fylgjumst auðvitað með fréttum og við fylgjumst með þeim sem stunda leigubílaakstur í dag. Margir leigubílstjórar þora hreinlega ekki að vera í miðbæ Reykjavíkur um helgar og á næturnar vegna ýmissa vandamála sem þá eru uppi. Það er hluti af vandanum að sennilega eru allt of fáir sem treysta sér til að keyra á þessum tíma.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði, margt í þessu reglugerðarverki hefur batnað en ítreka það sem ég sagði um þá endurskoðun sem fyrirhuguð er.