135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

leigubílar.

137. mál
[13:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ármann Kr. Ólafsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra svarið. Ég veit að aðgerðir geta leitt til þess að rekstrarskilyrði þeirra sem fyrir eru verði verri en það er hægt að gera breytingar án þess að rekstrarskilyrði á almennum tíma versni. Ég ætla að leyfa mér að renna yfir nokkur atriði.

Í fyrsta lagi mætti skylda núverandi leyfishafa til að gera bíl sinn út á skilgreindum tímum þegar vitað er að eftirspurnin er mest. Í öðru lagi væri hægt að fjölga leyfum í umferð ásamt því að skylda núverandi leyfishafa til að gera bílinn út á skilgreindum tíma þegar vitað er að eftirspurnin er mest. Í þriðja lagi væri hægt að gefa út sérstök leyfi fyrir þá sem einungis vildu veita þjónustu á háannatímum. Í fjórða lagi mætti veita núverandi leyfishöfum leyfi til að gera út bíl númer tvö á háannatímum og giltu þá sérstakar reglur um rekstur þess bíls sem miðuðu að því að sú útgerð væri ekki eins kostnaðarsöm og aðalbifreiðin. Í fimmta lagi væri hægt að veita leigubílstjórum leyfi til að gera út eigin bíl sem kæmi inn þegar mest þörf væri á þjónustu. Í sjötta lagi mætti gefa leigubílaakstur frjálsan en þá komum við inn á það sem hæstv. samgönguráðherra minntist á varðandi rekstrarskilyrðin.

Hæstv. forseti. Meginástæða þess að ég vek máls á þessu á hinu háa Alþingi er sú að ég vil að leigubílaþjónusta sé sniðin að þörfum neytenda. Ef ekki verður gerð bragarbót á núverandi kerfi hlýtur þessi akstur að enda í frjálsu atvinnuleyfi fyrir hvern þann sem hefur réttindi til leiguaksturs. Nú eru í bígerð lagasetningar sem snúa að því að auka rétt neytenda almennt. Ég mun engu að síður beita mér fyrir einstökum atriðum eins og þessum þar sem ég tel rétt neytenda fyrir borð borinn. Ef ekki verður tekið á framboði leigubíla þegar þörfin er mest, ef samgönguráðherra horfir ekki sérstaklega til þessa þáttar, mun ég sjálfur leggja fram þingmannafrumvarp sem snýr að þeim atriðum sem ég hef minnst á.

Í þinginu verður mönnum tíðrætt um samgöngur úti á landsbyggðinni (Forseti hringir.) og ég geri ekki lítið úr þeirri umræðu. En við megum ekki gleyma því að hér býr meginþorri fólks (Forseti hringir.) og þörfin fyrir bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu er mikil.