135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Múlagöng.

158. mál
[13:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég legg fram fyrirspurn til samgönguráðherra um Múlagöng og ég legg þessa fyrirspurn fram með hv. þm. Birni Val Gíslasyni sem sat hér sem varaþingmaður um þriggja vikna tíma, varamaður Steingríms J. Sigfússonar.

Fyrirspurnin hljóðar svo:

Eru áform uppi hjá ráðuneytinu um tvöföldun Múlaganga?

Múlagöng eru nú umtalsverð hindrun fyrir fólk sem ferðast um vestanverðan Eyjafjörð, sem sé út Eyjafjörðinn, og keyrir um göngin á milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Göngin eru lek og á þeim er kröpp beygja og blindbeygja Ólafsfjarðarmegin. Forskálinn er með tvöfaldri akrein sem kreppir síðan strax inn í einfalda akrein í gegnum göngin og fyrir almennan ferðamann eru þetta óþægilegar aðstæður og töluverð hindrun. Hindrunin er eftir sem áður mest fyrir þær vöruflutningabifreiðar sem nú fara um göngin, því að þau eru þröng.

Nú sér fram á verklok Héðinsfjarðarganga sem verða mikil samgöngubót á þessu svæði. Ef þau eiga að koma að fullum notum og þjóna hlutverki sínu, þ.e. að efla svæðið sem atvinnu- og búsetusvæði, og gera mögulegt að samtengja atvinnu og skóla, er ómögulegt að Múlagöng séu þau hindrun sem þau eru.

Því spyr ég hæstv. samgönguráðherra hvort uppi séu áform hjá ráðuneytinu um tvöföldun Múlaganga eða hvort einhverjar hugmyndir séu um lagfæringu á hindrunum eins og leka og aðkomu að göngunum.