135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Múlagöng.

158. mál
[13:58]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Þuríður Backman hefur beint til mín þeirri fyrirspurn hvort áform séu uppi hjá ráðuneytinu um tvöföldun Múlaganga. Því er til að svara að í gildandi samgönguáætlun fyrir 2007–2010, og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir 2007–2018, sem lögð var fram á Alþingi síðasta vor en var ekki samþykkt, eru engar áætlanir um tvöföldun Múlaganga.

Það er rétt sem hv. þingmaður talaði um að með opnun Héðinsfjarðarganga í desember 2009 er því spáð að umferð muni aukast mikið um svæðið, styttingin með Héðinsfjarðargöngum frá Ólafsfirði til Siglufjarðar er t.d. úr 60 km niður í 13 til 14 km, ef ég man rétt. Við eigum eftir að sjá hvað gerist, hvað umferðin eykst mikið við að Héðinsfjarðargöng opna. Hvað eykst umferðin mikið um Múlagöng og hvað þarf að gera í framhaldi? Verður viðvarandi umferðarstífla eða hvað gerist?

Af hverju spyr hv. þingmaður ekki út í Strákagöng? Þau eru sami þröskuldurinn ef haldið er áfram varðandi þá tengingu sem þar verður og umferðaraukningu. Strákagöng verða líka farartálmi vegna þess að þau eru einbreið. Vonandi byggjum við aldrei aftur einbreið göng á Íslandi, ég hygg að þau séu úr sögunni. Við búum við annað vandamál í Strákagöngum sem fagmenntun hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, jarðfræðin, hefur ekki ráðið við, þ.e. jarðsig á Siglufjarðarleið sem þó hefur verið mikið til friðs. Það var fyllt í það á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og síðan hefur það lítið breyst nema nú síðustu daga eftir að fór að rigna. Menn standa frammi fyrir þessum vanda og því vildu ýmsir frekar fara Fljótaleiðina, frá Siglufirði til Fljóta.

Ég hef smátíma aflögu og vildi því aðeins fá að koma með söguskýringu. Það var framsýnn maður sem kom frá námi í Þýskalandi árið 1937 eða 1938 sem hét Aage Schiöth. Siglfirðingar voru þá að fara eftir vinnu með haka og skóflu að gera Siglufjarðarskarð. Sá maður kom og skrifaði í bæjarblöðin að ekkert vit væri í að fara yfir þetta fjall, það ætti að fara undir það.