135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Múlagöng.

158. mál
[14:01]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir þessa spurningu sem er vert að hugleiða betur og fá frekari svör við hjá hæstv. ráðherra. Staðreyndin er sú að með tilkomu Héðinsfjarðarganga mun sá möguleiki opnast að skip geti landað vörum til uppskipunar á Siglufirði og þeim yrði í framhaldinu keyrt inn eftir Eyjafirði. Sá möguleiki er mjög spennandi í atvinnulegu tilliti og vert að skoða hann. Hins vegar eru Múlagöngin mikill þröskuldur hvað þau mál áhrærir og ég tel að það þurfi að skoða þessi mál sérstaklega í því samhengi. Auk þess eru byggðirnar við utanverðan Eyjafjörð að sameinast um mörg mjög mikilvæg verkefni, svo sem framhaldsskóla í Ólafsfirði sem mun nýtast byggðunum við utanverðan Eyjafjörð þannig að ég tel mjög mikilvægt að við horfum á þessi mál heildstætt til framtíðar litið og það er lag fyrir hæstv. ráðherra að koma þessum texta inn í langtímaáætlun sem við þurfum að afgreiða héðan úr þinginu.