135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Múlagöng.

158. mál
[14:07]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni um jarðgangamál. Eins og hv. þingmaður og fyrirspyrjandi sagði réttilega eru mörg brýn verkefni sem bíða og þau eru mörg brýnni en þau sem hér er rætt um, þ.e. tvöföldun Múlaganga eða Strákaganga. Það er einfaldlega þannig að við verðum að búa við þau eins og þau eru ansi mörg ár héðan í frá og vona að það takist að stýra umferðinni svolítið eftir því, eins og rætt var um með flutningabíla og annað slíkt. Það eru ýmsar leiðir til varðandi það.

En þó svo að núverandi samgönguáætlun sé sneisafull af mörkuðum framkvæmdum sem fram undan eru þá eru önnur miklu brýnni verkefni en þau sem hér hefur verið rætt um. Þar má t.d. nefna samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu til þess að fólk komist hraðar milli staða, ný Norðfjarðargöng sem getið var um í staðinn fyrir handónýt göng í 630 metra hæð yfir sjávarmáli sem er óskiljanlegt að hafi verið lögð, svo og Bolungarvíkurgöng í stað Óshlíðar þar sem grjóti rignir yfir fólk ef þannig veður er, það þarf að stytta vegalengdir á Eyjafjarðarsvæðinu um Vaðlaheiðargöng og það þarf að auðvelda Vestfirðingum leið sína um sunnanverða Vestfirði með göngum um Arnarfjörð/Dýrafjörð.

En ég ítreka það sem ég hef sagt að þetta hefur verið markað niður. Einhverjar breytingar kunna kannski að verða á því með langtímaáætlun en samgönguáætlun er sneisafull, það er mikið fram undan. Mesta áhyggjuefnið verður kannski hvort við höfum verktaka til að vinna öll þau verkefni sem þarf að vinna á næstu árum, á góðu verði þannig að við þurfum ekki að slá af framkvæmdum vegna svimandi hárra boða.