135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stytting vinnutíma.

151. mál
[14:23]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birkir J. Jónsson hefur beint til mín fyrirspurn um það hvort ég sem félagsmálaráðherra sé reiðubúin til að beita mér fyrir því í komandi kjarasamningum í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að vinnutíminn verði styttur.

Ég vil fyrst minna á að Ísland hefur fullgilt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 98 um samningafrelsið. Samkvæmt samþykktinni eru aðildarríki skuldbundin til að beita sér fyrir því að virtur sé réttur samtaka atvinnurekenda og launafólks til að semja um kaup og kjör af fúsum og frjálsum vilja. Stjórnvöld hafa þar af leiðandi fylgt þeirri stefnu að blanda sér sem minnst í kjarasamninga samtaka aðila á almennum vinnumarkaði. Málið horfir auðvitað öðruvísi við þegar hið opinbera er í hlutverki annars samningsaðilans.

Það er einnig rétt að draga fram og minna á að heildarsamtök á vinnumarkaði hafa kosið að semja sem mest um sín mál og beinlínis beðist undan afskiptum af hálfu ríkisvaldsins. Nefna má nokkur dæmi um það frá liðnum árum, t.d. í tengslum við framkvæmd á tilskipunum Evrópusambandsins, einkum þeim sem snerta vinnuaðstæður og vinnuskilyrði, og innleiðingu þeirra á íslenskum vinnurétti. Dæmi um þetta er tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 1993 um skipulag vinnutíma. Heildarsamtök á vinnumarkaði óskuðu eftir því að fá tækifæri til að hrinda tilskipuninni í framkvæmd með kjarasamningi. Það varð að ráði og var vinnutímatilskipuninni hrundið í framkvæmd á Íslandi með kjarasamningum.

Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að langur vinnutími er vissulega mikið áhyggjuefni. Þetta segi ég vegna þess að velferð barna og fjölskyldna veltur að stórum hluta á því að vinnutíminn sé skaplegur. Þótt það sé stefna stjórnvalda að blanda sér ekki í viðræður aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör með beinum hætti geta stjórnvöld haft áhrif með jákvæðum hætti á atriði sem hafa mikla þýðingu fyrir samfélagið.

Hér finnst mér tvennt skipta miklu máli. Á grundvelli sáttmála núverandi ríkisstjórnar hefur verið settur á laggirnar samráðsvettvangur milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir og langtímamarkmið á sviði efnahags-, atvinnu- og félagsmála. Fjórir ráðherrar eiga aðild að þessum samráðsvettvangi auk forustumanna samtaka launafólks og atvinnurekenda.

Hitt atriðið sem ég vil nefna er að á sumarþingi samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Ég hef þegar skipað samráðshóp til að hrinda áætluninni í framkvæmd. Í áætluninni er tekið fram að á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga verði mótaðar tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Einkum verði litið til þess hvernig tryggja megi að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutímann sveigjanlegri, og hvernig unnt sé að tryggja að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum, t.d. vegna veikinda þeirra eða fötlunar.

Ég mun fela samráðshópnum sem starfar á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar í þágu barna og ungmenna að undirbúa umfjöllun á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga. Á þann hátt verður greitt fyrir tillögugerð af hálfu samráðsvettvangsins um umbætur í framangreindum málum.