135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

byggðarlög á Austurlandi sem standa utan áhrifasvæðis álversframkvæmda.

120. mál
[14:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Staða sveitarfélaga á Miðausturlandi hefur batnað til mikilla muna á undanförnum árum í kjölfar mikilla framkvæmda á Miðausturlandi í tengslum við uppbyggingu álvers á Reyðarfirði. Áhrifasvæðið er fyrst og fremst Miðausturland og hafa byggðarlög þar vaxið til mikilla muna. Hins vegar er það svo að Austurland í heild sinni hefur ekki nema að hluta til hagnast á þessum framkvæmdum. Svokölluð jaðarsvæði fyrir norðan framkvæmdasvæðið og á Suðurfjörðum hafa því miður glímt við mikinn samdrátt í atvinnulífi og fólksfækkun. Þetta er staðreynd sem við gerum okkur öll grein fyrir og þurfum að horfast í augu við.

Á fundi stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi var þetta mál rætt á dögunum og þess farið á leit við hæstv. iðnaðarráðherra að hann skoði leiðir í samvinnu við hlutaðeigandi aðila til að snúa þessari þróun við og skoða vandamál þessara byggðarlaga. Ég veit til þess að forustumenn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi hafa tekið þessi málefni upp við hæstv. ráðherra og ég er hér kominn til að fylgja því eftir hver niðurstaða málsins er. Staðreyndin er sú að mörg byggðarlög á Austurlandi, eins og víðar á landsbyggðinni, glíma við mikil og erfið verkefni og því er mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma og ríkisstjórnin í þessu tilviki komi til móts við þær jaðarbyggðir.

Ég var á Vopnafirði á dögunum. Þar var m.a. mikið rætt um samgöngubætur og þess saknað að ríkisstjórnin skyldi ekki vilja beita sér í því í hinum svokölluðu mótvægisaðgerðum að bæta samgöngur til Vopnafjarðar. Ég á von á því, ef svar ráðherrans er mikilvægt, að þær áherslur verði mjög skýrar frá Vopnfirðingum. Þessi sveitarfélög þurfa innspýtingu og kannski ekki síst í formi þess að þeim sé veittur stuðningur til að geta staðið undir lögbundinni þjónustu sem viðkomandi sveitarfélög eiga að veita íbúum sínum. Því miður er það staðreynd að mörg sveitarfélög á Austurlandi geta vart veitt íbúum sínum lögbundna þjónustu í dag, hvað þá aðra og betri þjónustu, og þar af leiðandi verða þessi samfélög úti í þeirri samkeppni sem er um íbúana hér á landi.

Við verðum þess vegna, hæstv. forseti, að tryggja þeim sveitarfélögum á Austurlandi sem standa utan áhrifasvæðis stóriðjunnar tækifæri til að heyja þessa samkeppni á jafnréttisgrunni. Við þurfum að fara í þá vinnu í samstarfi við þessa aðila. Ég vona heitt og innilega að hæstv. ráðherra taki vel í þetta og því hef ég spurt hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög að mál þeirra verði skoðuð sérstaklega í þessu samhengi.