135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

byggðarlög á Austurlandi sem standa utan áhrifasvæðis álversframkvæmda.

120. mál
[14:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ærleg og heiðarleg svör í þessari umræðu. Ég tek það svo að hæstv. ráðherra hafi í raun verið að gefa yfirlýsingar áðan þess efnis að þessi mál verði skoðuð nánar í samvinnu við hlutaðeigandi aðila, þ.e. sveitarfélögin sem glíma við þessi vandamál.

Sá sem hér stendur gerir sér grein fyrir að þær framkvæmdir sem farið var í á Austurlandi á sínum tíma leysa ekki vanda alls Austurlands. Hins vegar ber að horfa á að það góða ástand sem núna ríkir í Fjarðabyggð og uppi á Héraði væri ekki í dag nema fyrir tilstilli þessara framkvæmda og við getum gert okkur í hugarlund hver staða viðkomandi byggðarlaga væri í dag ef til þessara framkvæmda hefði ekki komið.

Ég fagna áhuga hæstv. ráðherra þess ráðuneytis sem fer með byggðamálin í landinu sem er svo sannarlega ekki lítið ráðuneyti í mínum huga á tímum þegar miklir erfiðleikar blasa við landsbyggðinni í kjölfar samdráttar í þorskkvóta. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann ekki að endurskoða verði þá ákvörðun sem birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um að afnema flutningsjöfnun á olíuvörum, sem mun þýða einmitt fyrir byggðirnar á Norðausturlandi og Austurlandi í heild sinni tugmilljóna króna útgjaldaauka fyrir fyrirtækin á svæðinu, fyrir almenning á svæðinu? Ekki eru þetta breiðu bökin þessa dagana sem eiga að þurfa að bera slíka skerðingu. Hæstv. ráðherra beitti sér fyrir því að 150 millj. færu til þess að jafna flutningskostnað á Vestfjörðum. Fyrrnefndar byggðir búa við mjög sambærileg vandamál og trúlega hærri flutningskostnað en Vestfirðir. Er hæstv. ráðherra tilbúinn að skoða hvort til greina komi að þessar byggðir fái sams konar úrlausn mála (Forseti hringir.) og Vestfirðir hafa fengið hjá núverandi ríkisstjórn?