135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

byggðarlög á Austurlandi sem standa utan áhrifasvæðis álversframkvæmda.

120. mál
[14:39]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þessi byggðamálaráðherra er til í að skoða allt sem jákvætt horfir gagnvart þeim byggðarlögum sem eiga í vök að verjast. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan um áhrif sogkrafts álversframkvæmdanna á þau byggðarlög sem hv. þingmaður ber svo fyrir brjósti. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur haft neikvæð áhrif á þau byggðarlög, eins og Djúpavog og Seyðisfjörð og fleiri byggðarlög sem hv. þingmaður nefndi áðan, að vera í nágrenni við þessar miklu framkvæmdir sem hafa sogað til sín mannaflann, ekki bara af Austfjörðum, heldur líka af Vestfjörðum. Þegar ég var á mínum fyrstu ferðalögum sem byggðamálaráðherra vestur á fjörðum til að reyna að gera mér grein fyrir stöðu mála þar, hvað blasti við mér þegar ég opnaði staðarblöðin? Það voru auglýsingar frá Fjarðaáli beinlínis til þess ætlaðar að fá fólk af Vestfjörðum, með borgunum í fríðu, til að flytjast austur. Þetta mál er því ekki einhlítt.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði að auðvitað hafa álversframkvæmdirnar á Austurlandi skipt sköpum fyrir ákveðin svæði þarna en önnur hafa goldið þeirra. Ég segi eins og í fyrra svari mínu að ég hef fullan hug á að skoða það mál sem hv. þingmaður beinir til mín en ég vil gera það með öðrum og yfirgripsmeiri hætti en þeir ágætu fulltrúar Austfirðinga sem á minn fund komu lögðu til í upphafi. Ég tel að til þess að fá greinargóða mynd af stöðunni og til að geta komið með raunverulegar úrbætur sem tengjast þá fjárhagsmálefnum þessara sveitarfélaga, samgöngubótum og yfirleitt afli þeirra til að standa undir skyldum sínum gagnvart borgurum innan sinna vébanda, þurfi að minnsta kosti þessi þrjú ráðuneyti. Ég sagði hv. þingmanni að búið er að innbyrða tvö og ég vona að eftir áramót geti ég upplýst hv. þingmann betur um það hvernig staðan er, en ég hyggst ráðast í þetta strax (Forseti hringir.) í upphafi næsta árs af ástæðum sem hv. þingmaður getur ráðið af fyrra svari mínu.