135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stjórnunarkostnaður Ríkisútvarpsins ohf.

141. mál
[14:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Um miðjan síðasta mánuð bárust fregnir af því í fjölmiðlum að ákvarðanir hefðu verið teknar um launakjör stjórnenda hjá Ríkisútvarpinu og var það aðallega rakið til þess að ákveðið var á sínum tíma að breyta rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins úr hefðbundinni ríkisstofnun í opinbert hlutafélag. Í fjölmiðlaumfjöllun af þessu máli hafa að sjálfsögðu ýmsir blandað sér í þá umræðu, m.a. forsvarsmenn stéttarfélaga, bæði Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins, Bandalags háskólamanna og fleiri, og hefur komið fram í viðtölum við þá að eðlilegt sé að þær hækkanir sem ákveðnar voru hjá æðsta stjórnanda Ríkisútvarpsins séu látnar gilda fyrir aðra starfsmenn útvarpsins sömuleiðis.

Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum að um sé að ræða hátt í 100% hækkun á launum forstjóra Ríkisútvarpsins ohf. og ætla ég ekki að fullyrða það hér og nú að það séu réttar upplýsingar fyrr en ég heyri svar hæstv. menntamálaráðherra. En það er alveg ljóst að ef svo er þá er það mjög sérkennilegt innlegg í alla umræðu um launamál í samfélaginu, að ekki sé talað um í aðdraganda þeirra kjarasamninga sem nú standa fyrir dyrum á vinnumarkaði.

Formaður Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins hefur látið hafa það eftir sér í fjölmiðlum að fregnir af þessari hækkun hafi komið nokkuð á óvart en hann segir hana líka fagnaðarnefni í viðtali, „ef“ — eins og segir í viðtalinu, með leyfi forseta — „miðað yrði við þessar hækkanir við endurskoðun næstu kjarasamninga“.

Því er ljóst að forsvarsmenn stéttarfélaga líta að sjálfsögðu svo á og eðlilega að ákvarðanir af þessum toga hljóti að verða teknar til umfjöllunar og verða hafðar til hliðsjónar þegar kemur að kjarasamningum. Það er auðvitað ábyrgðaratriði þegar opinberir aðilar ganga á undan með ákvarðanir af þessum toga. Í þessu sambandi má líka vísa til ályktana frá ársþingi Alþýðusambandsins sem haldið var núna í októbermánuði þar sem að sjálfsögðu var fjallað um þetta efni.

Vegna þessara fregna fannst mér nauðsynlegt að frá fram upplýsingar um þetta á hv. Alþingi og hef þess vegna lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hver er launakostnaður vegna útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins ohf. nú og hver var sambærilegur kostnaður fyrir ári síðan?

2. Hver er þóknun formanns og annarra stjórnarmanna í Ríkisútvarpinu ohf. nú og hver var þóknun fulltrúa í útvarpsráði fyrir ári síðan?

3. Hver er kostnaður við yfirstjórn Ríkisútvarpsins ohf. og hver var hann fyrir ári síðan?

4. Hefur launakostnaður almennra starfsmanna breyst hlutfallslega eins og launakostnaður útvarpsstjóra?