135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

157. mál
[15:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin, sérstaklega þá heitstrengingu að skólinn verði settur á og hefjist 2009 og að það gangi þá eftir að á þeim tíma verði Héðinsfjarðargöng opnuð.

Ég vil líka taka undir og árétta orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, það krefst undirbúnings og það krefst kynningar og hugmyndavinnan er rétt að fara í gang. Ég nefndi áðan að málið virtist vera svolítið í lausu lofti og það er það auðvitað þegar forvinnan er rétt að byrja. Sem betur fer á að leita til íbúanna, það er þeirra að segja hvernig fyrirkomulagið eigi að vera og hvernig skólinn eigi að vera uppbyggður, sveitarstjórnarmenn eru svo hafðir með í ráðum. Það fer að líða að jólum 2007 og málið er enn þá, leyfi ég mér að segja, svolítið í lausu lofti. Það vantar að ramminn sé festur og hægt verði að ráða starfsmenn til undirbúnings.

Ég leitaði að fjárframlögum til skólans í fjárlögum 2008 en fann ekki, það getur verið glámskyggni. En ef þetta er hluti af mótvægisaðgerðum núverandi ríkisstjórnar vegna niðurskurðar í veiðiheimildum á þorski finnst mér langt seilst eftir mótvægisaðgerðum. Ég hefði talið að þetta mál væri í ákveðnum farvegi og vinna ætti markvisst að því.

En ég vil, hæstv. forseti, leyfa mér að styðja hæstv. menntamálaráðherra í því að fara að vilja heimamanna og byggja þarna upp af metnaði þann skóla sem þeir óska eftir.