135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

157. mál
[15:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og líka þá óþreyju sem verður vart, sem mér finnst endurspegla metnað af hálfu þingheims varðandi skólahald við utanverðan Eyjafjörð. Ég held að allir séu samstilltir og samhljóma hvað það varðar, við ætlum okkur að koma upp öflugu skólastarfi sem næst þeirri þjónustu sem við viljum byggja upp við samfélagið við utanverðan Eyjafjörð.

Að sjálfsögðu er þetta ekki mótvægisaðgerð. Þetta er markviss áætlun sem við höfum staðið að, m.a. ég og hv. þm. Birkir Jón Jónsson, á síðasta þingi. Hugsunin með 5 millj. kr. framlagi í mótvægisaðgerðapakkanum var sú að við gætum farið strax af stað í að ráða starfsmenn. Ekki var gert ráð fyrir því í fjárlögum þessa árs, ekki var eyrnamerkt fjármagn til þess. Nú er það til staðar þannig að við eigum að geta fengið starfsmann til að halda utan um verkefnið, ýta því áfram í þeirri góðu samvinnu og samstarfi sem um þetta merkilega verkefni ríkir.