135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra.

132. mál
[15:14]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að í sáttmálanum er fjallað um mannréttindi fatlaðs fólks. Ég legg mikla áherslu á að við hröðum yfirferð á lögunum með þeim ráðuneytum sem þurfa að koma að málinu. Ég held að það sé nokkur trygging fyrir því að vel verði haldið á spöðunum að hv. þm. Helgi Hjörvar er í forustu fyrir því nefndarstarfi. Hann er mikill áhugamaður um að við fullgildum þennan sáttmála. Við fljótlegan samanburð á þessum réttindasamningi við íslenska löggjöf teljum við að lagaákvæði okkar séu ekki beinlínis andstæð samningnum en kannski þurfi eitthvað að hnykkja á og skýra betur rétt fatlaðra. Ég á því ekki von á að þetta taki langan tíma.

Ég vil minna á að við undirrituðum þennan samning í mars á þessu ári og erum þegar farin að fikra okkur að því að hægt sé að fullgilda hann. Ég tel að það sé metnaðarfullt markmið, sem ég setti fram, að stefna að því að við verðum meðal 20 fyrstu þjóða sem fullgildum þennan samning. Er það einlæg von mín að það takist.