135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska friðargæslan.

74. mál
[15:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin um leið og ég hlýt að lýsa yfir nokkrum vonbrigðum með þau og lýsa mig ósammála niðurstöðu hæstv. ráðherra. Ég mun óska eftir því að utanríkismálanefnd haldi áfram að fara yfir þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar að það samrýmist alls ekki þeim breytingum sem Alþingi ákvað á frumvarpinu um íslensku friðargæsluna að skilgreina hana alfarið sem borgaralegt verkefni og taka út þann tölulið upphaflega frumvarpsins sem heimilaði að senda fólk til aðgerða til að halda ástandi á átakasvæðum í skefjum. Sá liður féll út úr frumvarpinu. Hann hefði átt beint við ástandið í Afganistan eins og það er núna.

Ég bendi á að tíu af fimmtán friðargæsluliðum í Afganistan starfa innan herkerfisins á Kabúl-flugvelli og bera starfsheiti eins og Deputy Commander, Assistant Commander, J1 Officer o.s.frv. Hvert í íslenskan veruleika eru þessi starfsheiti sótt?

Ég vísa einnig til þess að Alþingi vildi með breytingu sinni tryggja að verkefni eða þátttaka Íslendinga mætti aldrei brjóta í bága við ákvæði mannúðar og mannréttindasamninga, þar með talið Genfarsamninganna, ekki síst um vernd óbreyttra borgara. Mikil umræða er nú um það á alþjóðavettvangi að hið óheyrilega borgaralega mannfall í Afganistan, sem NATO-liðið ber ábyrgð á, samrýmist engan veginn framgöngu manna ef þeir vilja hafa í heiðri þessa samninga. Ég tel því að í ljósi þess að Alþingi gerði þessar efnisbreytingar og að ástandið er eins og raun ber vitni sé meira en full þörf á því að endurskoða þessa framkvæmd okkar. Eðlilegast væri að gera það með því að kalla liðið heim og móta nýjar áherslur, þó fyrr hefði verið, og standa síðan að þátttöku okkar að þessu leyti þannig að hafið væri yfir vafa að það væri í samræmi við lög (Forseti hringir.) og vilja Alþingis í þessum efnum.