135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[15:31]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti.

Einn var að smíða ausutetur,

annar hjá honum sat.

Sá þriðji kom og bætti um betur

og boraði á hana gat.

Það er því miður gat á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ráðherrar tala út og suður, kjarasamningar eru lausir, það er vaxandi þrýstingur í hagkerfinu, stýrivextir Seðlabankans virka á annan helming þjóðarbúsins, fyrst og fremst skuldug heimili og minni fyrirtæki, og ofurvaxtastigið er farið að reyna verulega á skuldsett ungt fólk. Ég tel að sinnuleysi ríkisstjórnarinnar sé algert. Hæstv. forsætisráðherra ber alla ábyrgð á því. Höfuðverkur forsætisráðherra á eftir að aukast ef ríkisstjórnin spyrnir hvergi við fæti. Seðlabankastjóri sá sig tilknúinn að stíga út úr musteri peninganna og rassskella ráðherra ríkisstjórnarinnar við sólarupprás í gærmorgun. Hann efaðist um að ráðherrar læsu eigin texta um stöðu þjóðarbúsins. Aðalhagfræðingur Seðlabankans segir enn fremur í Morgunblaðinu í fyrradag, með leyfi forseta:

„Sjálfstæð peningastefna og fljótandi gengi fyrir jafnlítið land og Ísland má kalla hagfræðilega tilraunastarfsemi. Tilrauninni er ekki lokið og of snemmt að fullyrða um niðurstöðuna. Mikilvægt er að stjórnvöld, hagsmunasamtök og almenningur geri sér grein fyrir því að um næstu framtíð er ekki annarra kosta völ en að vinna að stöðugleika innan þess ramma sem markaður var árið 2001.“

Sé sá ráðherra spurður einhvers sem fer með viðskiptamálin og hið ofurþanda bankakerfi sem í dag ber mikla ábyrgð á þenslunni svarar hann því til að evran sé bjarghringurinn. Það er vont að fá evru á heilann og ég tala ekki um þar sem hún getur ekki orðið gjaldmiðill okkar í náinni framtíð.

Þegar sveitarstjórnarmenn koma saman og spyrja um áform ríkisstjórnarinnar segir félagsmálaráðherrann eitt en fjármálaráðherrann ekki neitt. Matvælamarkaðurinn og risakeðjurnar liggja undir grun um samráð og svindl gegn neytendum. Ein stærsta orsök þenslunnar er þúsundir íbúða í byggingu í eign verktaka og heildsölufyrirtækja þar sem bankakerfið kemur að. Hvers vegna virka ekki lögmálin um framboð og eftirspurn gagnvart húsnæðismarkaðnum?

Íbúðaverð í höfuðborginni hefur hækkað um 70% á þremur árum. Þó er búið að byggja í landinu þúsundir íbúða umfram þarfir. Er maðkur í mysunni? Virka ekki ofurvextir Seðlabankans á þennan markað? Hver ætlar að búa í öllum þessum húsum? Og aldrei er meira byggt af nýju verslunarrými á hundruðum þúsunda fermetra að grunnfleti. Ótrúlegt.

Nú boðar stærsti banki landsins að íbúðalán beri ekki lengur 4,15% vexti eins og 2004 þegar bankakerfið gerði innrás á húsnæðismálamarkaðinn, heldur 6,4 eða 7,15%. Þetta þýðir því miður á mannamáli að eigandi íbúðar þarf að greiða árlega 400–600 þús. kr. hærri upphæð af eign sinni. Á hvaða leið er bankakerfið? Hver er samkeppnin? Ég spyr. Íbúðalánasjóður fólksins er enn sem betur fer starfandi á markaðnum. Lánakjör húsbyggjenda eru að versna verulega.

Ég taldi að frjáls samkeppni bankanna mundi efla alla dáð. Fer öll orka bankakerfisins í útrásina? Erum við sem ætlum að þrauka hér 2. flokks fólk?

Stærstu hagsmunamál allra Íslendinga eru að stöðva verðbólguna og lækka fjármagnskostnað heimilanna. Á einu ári hefur húsnæðiskostnaður neysluvísitölu hækkað verðbólguna um 3,2 prósentustig. Þetta er meiri hækkun en dæmi eru um í mörg ár. Mikil þensla á húsnæðismarkaði hækkar verðbólgu hér verulega. Seðlabankinn heldur þess vegna vaxtastigi háu. Ég spyr: Er íbúðarhúsnæði neysla eða er það fjárfesting lífsins? Á húsnæðiskostnaður að vera inni í neysluvísitölu? Ég tel að það orki tvímælis.

Allar ríkisstjórnir hafa orðið að grípa til efnahagsaðgerða. Það var gert 1995 til að sporna gegn atvinnuleysi. Það var gert 1999 og 2003, í báðum tilfellum til að stemma stigu við þenslu og verðbólgu. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra. Dagurinn í dag er svartur á gengi hlutabréfa, það fellur hratt. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 4% í morgun, lausatök ríkja í hagstjórn landsins, Seðlabankinn einn ræður ekkert við ofþanið hagkerfi. Í ljósi þess að stýrivextir Seðlabankans fara að bíta verulega á skuldsetta einstaklinga og fyrirtæki spyr ég:

Er ekki mikilvægt að ríkisstjórnin, aðilar vinnumarkaðarins, bankakerfið og sveitarfélögin setjist yfir nýja þjóðarsátt um að stemma stigu við verðbólgunni? Ástandið er grafalvarlegt, því miður. Ef ekki verður tekið fast á árunum er mikil óvissa fram undan, mikil óvissa og mikil hætta (Forseti hringir.) fyrir atvinnulíf og einstaklinga á Íslandi.