135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[15:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er að nokkru leyti endurtekning á umræðum sem við áttum fyrir helgi í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans. Það er sannarlega ekki vanþörf á að ræða þetta oft og lengi, og aftur og aftur og þangað til ríkisstjórn Íslands vaknar.

Hó, hó, ríkisstjórn Íslands, góðan daginn, það er kominn morgunn og það er mál að ganga til verka. Þegar svo er komið að formaður bankastjórnar Seðlabankans lýsir áhyggjum með þeim hætti sem hann gerði í gær, að erlendar skuldir séu komnar að ystu mörkum, og lýsir jafnframt efasemdum um áframhaldandi stóriðjufjárfestingar með orðalagi sem hefði allt saman getað verið beint upp úr gamalli ræðu frá mér, meira og minna, ætti ríkisstjórnin kannski að fara að hugsa sinn gang. Er hún á réttri leið með stefnu sína eða stefnuleysi, aðgerðir eða aðgerðaleysi í þessum efnum? Er ekki bara veruleikinn sá að stóriðju- og útrásarhagkerfið er að sökkva þjóðarbúinu í skuldum? Það jafnvægisleysi sem blasir við hverjum manni getur ekki gengið til lengdar. Það er stórhættulegt. Afkoma útflutnings- og samkeppnisgreina fer hríðversnandi með núverandi gengisstigi og þeim háu vöxtum og ýmsum öðrum óhagstæðum ytri skilyrðum svo að ekki sé talað um skuldsett heimili og almenning í landinu sem fá heldur betur kveðjurnar núna frá bankakerfinu sem ætlaði að taka að sér húsnæðislánin ekki alls fyrir löngu. Hvar eru nú stjórnmálamennirnir sem töldu að Íbúðalánasjóður væri orðinn óþarfur og mætti að ósekju slá af?

Það undarlegasta er að ríkisstjórnin skuli við þessar aðstæður horfa upp á 2–4 risavaxin stóriðju- og virkjanafjárfestingarverkefni vera undirbúin af fullum krafti og iðnaðarráðherra segir að þetta sé stjórnlaust. Ætla menn þá að hafa það þannig að gamla framsóknarlínan fái að gilda áfram? Ráðum við ekkert við fjárfestingar- og umsetningarstigið í samfélaginu og verðum bara að fljóta áfram sofandi að feigðarósi? Ég held að hæstv. forsætisráðherra verði að fara að hafa sig í gang og ræða þetta efnislega (Forseti hringir.) en ekki vera með hálfgerða útúrsnúninga og (Forseti hringir.) umkenningar eins og hann var hér áðan um að þetta væri meira og minna allt Framsókn að kenna.