135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[15:46]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra vék að því að í upphafi síðasta kjörtímabils hefðu verið gerð mistök þegar ákveðið var að hækka íbúðalán og lækka vexti á þeim markaði hjá Íbúðalánasjóði í kjölfar þess að viðskiptabankarnir sneru sér að þeim útlánum með meiri krafti en verið hafði. Ég er ekki viss um að ég geti tekið undir þá skoðun hans. Ég held hins vegar að stærstu mistökin í stjórn efnahagsmála á seinni tíma hafi verið ákvörðun Seðlabanka Íslands í desember 2003 þegar bindiskyldan var lækkuð úr 4 prósentustigum niður í 2 prósentustig og 20 milljarðar kr. losnuðu fyrir viðskiptabankana á einu bretti. Það leiddi til þess að aðeins fimm mánuðum síðar var peningamagn í umferð það mesta sem það hafði nokkru sinni verið í sögu landsins og hafði aukist um 100 milljarða kr. á síðustu 12 mánuðum þar á undan.

Ég held að við séum enn þá að bíta dálítið úr nálinni með þessi mistök Seðlabanka Íslands frá þeim tíma. Hins vegar breytir það því ekki að Seðlabankinn á um þessar mundir aðeins það val að reyna að halda aftur af verðbólgu. Eina tæki hans til þess er að hafa háa vexti. Þeir hafa áhrif og þess vegna er kvartað undan þeim, m.a. úr viðskiptalífinu.

Það sem upp á stendur er að ríkisstjórnin grípi til aðgerða sem eru til þess fallnar að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika og lága verðbólgu. Ef Seðlabanki Íslands gripi ekki til hárra vaxta væri hér há verðbólga og gengið félli, það er hinn valkosturinn. Við hljótum að kalla eftir því að ríkisstjórnin hafi einhver úrræði og einhverja stefnu í því að koma í veg fyrir áframhaldandi efnahagslegan óstöðugleika á næstu mánuðum.