135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[15:59]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Því miður gerðist það að hæstv. forsætisráðherra skilaði enn auðu í umræðu um efnahagsmál og hefur hér uppi útúrsnúninga, hefur engar tillögur og ríkisstjórnin virðist því miður vera ráðþrota. Mjög alvarlegir hlutir blasa við í hagkerfinu. Við sjáum þá gerast í dag, við heyrðum í seðlabankastjóra í gær og við vitum að ríkisstjórnin er ekki að gera neitt. Sannleikurinn er sá að þegar gamli hundurinn á Brúnastöðum beit í skottið á sér fór hann hring eftir hring. Menn bíta í skottið á sér og eru í rauninni ekkert að gera.

Ég er hér að predika það, hæstv. forsætisráðherra, sem ég stóð að þegar ég sat í ríkisstjórn 1999 og 2003, að reyna að ná snertilendingu. Nú er enginn að vinna að því að ná snertilendingu. Mér sýnist að menn séu að þenja kerfið enn. Ég sá og heyrði í sjónvarpinu einn daginn einn spámanninn suður á Indlandi, skeggjaðan, glæsilegan mann, tala um að tækifæri Íslendinga væru þar, ekki bara í milljónum heldur trilljónum og skrilljónum, eins og maður sagði þegar maður var barn. Ráðherrarnir eru mjög frjálsir í málflutningi sínum við mjög erfiðar aðstæður í íslensku samfélagi.

Sannleikurinn er sá að lífskjör hafa batnað mjög mikið hér á síðustu árum og kjarabæturnar orðið miklar, hæstv. forsætisráðherra. En við sjáum núna að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar er byrjað að valda því að kjarabæturnar eru að hverfa, þær eru að fara í vexti og vaxtavexti. Þess vegna er verðbólgan farin að bíta mjög á hinn almenna mann í þjóðfélaginu. Þess vegna er það von mín að hæstv. forsætisráðherra vakni.

Seðlabankastjórinn gekk út í gær, efnahagsstjóri Seðlabankans í fyrradag. Við komum hér í stjórnarandstöðunni í gær eða fyrradag og erum komin hér aftur til að biðja ríkisstjórnina um að opna augun, (Forseti hringir.) eyrun og fara að taka á vandanum. Ég lagði fram í lok ræðu minnar tillögur í þeim efnum, nýja þjóðarsátt. Ég er ekki að skila auðu í þessu, ég er að ráðleggja hæstv. forsætisráðherra heilt í málinu.