135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stýrivextir Seðlabankans og stjórn efnahagsmála.

[16:02]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst ánægjulegt að hv. þingmaður skuli muna eftir snertilendingunni sem er hugtak sem ég bjó til í ræðustól Alþingis fyrir nokkrum árum (Gripið fram í.) og við stóðum saman að því að ná oftar en einu sinni. Það er auðvitað það sem er fram undan hér, það er ekkert annað.

Það sem fólk talar hér um er náttúrlega það að það hefur verið mikill hagvöxtur í landinu. Hann er af hinu góða. En það er vissulega einstigi að halda honum gangandi, halda honum áfram en reyna jafnframt að hafa tök á verðbólgunni. Út á þetta ganga aðgerðir Seðlabankans, út á þetta gengur fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og þær aðgerðir sem hún hefur á sínu valdi og hefur gripið til í ríkisfjármálum á undanförnum árum með þeim árangri að það er glæsilegur afgangur í ríkissjóði ár eftir ár. Ekki veit ég hvað gamli hundurinn á Brúnastöðum hefði sagt við því.

Umræða eins og þessi er gagnleg vegna þess að hún varpar ljósi á það hverjir hafi eitthvað til málanna að leggja og hverjir ekki. (Gripið fram í.) Auðvitað er það mikill útúrsnúningur sem fram kom hér hjá hv. þm. Jóni Magnússyni að ríkisstjórnin stefni leynt og ljóst að aðild að Evrópusambandinu þó að ég hafi nefnt að eini raunhæfi kosturinn kerfislega séð fyrir utan það kerfi sem við erum núna með sé að ganga í Evrópusambandið. Ég nefndi það en sagði jafnframt að það væri ekki raunhæfur kostur, það er ekki eitthvað sem er á dagskrá. Það er auðvitað útúrsnúningur að leggja það fyrir með þeim hætti sem hann gerði, vafalaust í ógáti.

Ríkisstjórnin stendur sína vakt, hv. málshefjandi þarf ekki að efast um það og aðrir þingmenn þurfa ekki að efast um það. Ríkisstjórnin mun (Gripið fram í.) standa vörð um verkefni sín hér og þingið mun að sjálfsögðu fá tækifæri til að fylgjast með því auk þess sem hinn nýi samráðsvettvangur sem búið er að koma á laggirnar mun verða kallaður saman áður en langt um líður.