135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:06]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú staða sem upp er komin er grafalvarleg. Íslenska ákvæðið náðist í gegn með þrotlausri vinnu ráðherra og embættismanna á erlendum vettvangi. Við þurftum að sannfæra önnur ríki um stöðuna þannig að aðrir ráðherrar áttuðu sig á því að átta sinnum betra er að framleiða t.d. eitt tonn af áli hér, fyrir loftslagið, en framleiða það með olíu og kolum. Þetta sáu allir umhverfisráðherrar annarra ríkja og samþykktu íslenska ákvæðið. Það er mikilvægt fyrir lofthjúpinn.

Hvað er svo að gerast á Íslandi núna? Ráðherrar koma með mjög misvísandi skilaboð. Hæstv. samfylkingarráðherrar sem hafa hingað til talað hafa verið á móti ákvæðinu og reyndar alla tíð. En hæstv. forsætisráðherra talar með ákvæðinu, telur það skynsamlegt, að það haldi sveigjanleika fyrir framtíðina o.s.frv. Það er hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra og er ekki boðlegt, virðulegur forseti, að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki telja þetta alvarlegt mál. Við gætum skaðað samningsstöðu okkar og það er ekki hægt að ná íslenska ákvæðinu fram á ný nema þeir ráðherrar sem eiga að fara í samningaviðræðurnar beiti sér af fullum krafti við að viðhalda ákvæðinu.

Ég spyr, hæstv. forseti: Er líklegt að menn beiti sér í málinu þegar þeir tala eins og hér hefur komið fram? Ráðherrarnir tala út og suður í málinu og þrír af þessum fjórum lykilráðherrum í málinu eru frá Samfylkingunni. Það eru hæstv. umhverfisráðherra, hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Þá er staðan ekki góð. Ég bið hæstv. utanríkisráðherra að íhuga þessa stöðu. Það er hlutverk hæstv. utanríkisráðherra að halda utan um samningsstöðu okkar á erlendum vettvang. Þessi staða er ekki boðleg fyrir ríki eins og Ísland.