135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Ekki er tími fyrir dýpri hugmyndafræðilega umræðu sem þó hefði verið fróðlegt og gaman að fara í og varpa upp spurningunni: Hvernig hefur leið hernaðarhyggjunnar og vígbúnaðarins gefist mannkyninu til að skapa frið í heiminum? Erum við nær því marki en við vorum fyrir 10 til 50 árum? Er þessi aðferðafræði, sem búið er að ástunda í þúsundir ára með styrjöldum og blóðbaði, ekki að verða fullreynd hjá mannkyninu? Vopn hafa tilheigingu til að vera notuð þar sem þeim er hlaðið upp, þar á meðal á Balkanskaga. Þar var eitt svakalegasta vopnabúr af hefðbundnu tagi sem fyrirfannst í Evrópu eins og kunnugt er. Það var heldur betur notað og ég vona að hv. þingmaður sé ekki að reyna að gera mig ábyrgan fyrir þjóðernishreinsunum og blóðbaði þar þótt að ég leyfi mér á hugmyndafræðilegum forsendum að gagnrýna hernaðarhyggjuna. (Gripið fram í.)

Við gætum þess vegna rætt um samningaviðræðurnar í Rambúje og hvernig þeim var strandað. Var mikill vilji hjá þeim sem ætluðu sér að fara í stríð til þess að leysa málið með diplómatískum og pólitískum hætti? Eigum við að ræða það? Við gætum líka rætt um styrjaldaraðilana í Kosovo sem hétu skæruliðar og glæpahópar þangað til það hentaði vestrænum aðilum að kalla þá frelsisher Kosovo. Þeir urðu svo að skæruliðum aftur sex mánuðum síðar. Þannig var nú hræsnin og tvískinnungurinn þar en við skulum sleppa því hér.

Það er ógæfulegt að menn skuli ekki ná pólitískum forsendum til að endurskilgreina öryggismál og öryggisgæslumál heimsins. Þau eru föst í viðjum hernaðarhyggjunnar og hernaðarbandalaganna. Lýðræðislegar öryggisgæslustofnanir, ÖSE og sjálft öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, sem menn hafa af veikum mætti reynt að byggja upp, eru máttlausar (Forseti hringir.) vegna þess að herveldin vilja ekki færa verkefnin til þeirra. Það hentar stórvelda- og hernaðarhagsmunum þeirra að deila og drottna og það er sú pólitík sem mér finnst hv. þingmaður skrifa upp á, því miður.