135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:51]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður sér þessa atburðarás, og hún er öll staðfest í fjölmiðlum og í fréttatilkynningum frá bæði utanríkisráðuneytinu og frá viðkomandi starfsmanni, Ólafi Erni Haraldssyni, getur maður ekki dregið aðrar ályktanir en þær að hér hafi eitthvað mjög furðulegt verið á ferðinni. Engar ásakanir eru um að viðkomandi hafi ekki staðið sig vel í starfi, það er hreinlega tekið fram að viðkomandi hafi staðið sig vel í starfi. Maður kemur að mínu mati ekki svona fram við ríkisstarfsmenn.

Ég nefndi nokkra aðila sem voru í störfum fyrir önnur ráðuneyti á sínum tíma og sumir starfa þar enn. Það var verið að gera breytingar á þessum stofnunum, það er alltaf verið að breyta stofnunum. Á það bara að hreinsast út? Ég tel þetta mjög ankannalegt og þetta verður til þess að Morgunblaðið tekur málið sérstaklega upp í leiðara og fer að vísa í gamaldags vinnubrögð, ráðningar upp á flokksskírteini o.s.frv., að hreinsað sé út þegar nýir valdhafar koma.

Ég hlýt að draga þetta fram eftir að hafa skoðað sérstaklega gögnin sem lúta að þessu máli. Þetta er allt í opinberum gögnum. Þessa sér stað í fréttatilkynningum frá aðilum eða í fréttum. Að vísu geta fréttir stundum verið rangar en ég vísa í fréttatilkynningar. Það er mjög ankannalegt hvernig staðið hefur verið að verki.

Varðandi það að draga til baka aðila okkar í friðargæslunni í Írak þá bað Írak um þetta verkefni sérstaklega. Ég vil einnig draga það fram að DAC er ekki höfuðatriðið í þessu máli. Við höfum verið að aðstoða við uppbyggingu í Írak. Við erum að undirbúa samfélagið til að takast á við framtíðina. Hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sagði opinberlega að hann hefði ekki gert þetta. Þannig að ég hlýt að gagnrýna (Forseti hringir.) þessa gjörð. Ég tel að hún hafi verið röng.