135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:55]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að þetta er mjög viðkvæmt fyrir hv. þm. Árna Pál Árnason. En staðreyndin er sú að það er ráðherra sem tekur ákvörðun um að viðkomandi hætti og það eftir að viðkomandi hefur náð miklum árangri í starfi, búinn að lækka útgjöld stofnunarinnar um 400 millj. kr., úr 1,2 milljarði í 800 millj. kr. Um 50 starfsmönnum var sagt upp og þetta fór allt frekar vel fram. Þetta eru mjög viðkvæmar aðgerðir.

Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Hann skilaði þeirri umbreytingu af sér með miklum sóma og náði verulegri hagræðingu í rekstrinum“ — og honum eru þökkuð góð störf.

Í fréttatilkynningu viðkomandi starfsmanns segir síðan, með leyfi forseta:

„Ráðuneytinu var því ekki aðeins kunnugt um starfslok mín heldur voru þau ákvörðun ráðherrans og á þeim tíma sem ráðherrann óskaði og tilkynnt bæði honum og ráðuneytisstjóra skriflega með tölvupósti.“ — Þannig að þetta er ákvörðun ráðherra.

Það er ljóst að þetta er mjög sérstakt þetta mál. Ég get bætt við listann af því að það er alltaf viðkvæmt þegar þingmenn fara í önnur störf, það er kannski ekki um auðugan garð að gresja hjá þeim, því miður, ef við miðum okkur við önnur ríki. Ég tekið sem dæmi sendiherra sem hafa verið ráðnir til utanríkisþjónustunnar. Var það gert með auglýsingu? Ég efast um það. Ég get nefnt hér sendiherra eins og Svavar Gestsson, best að nefna nokkra samfylkingartengda, Jón Baldvin Hannibalsson, Guðmund Árna Stefánsson og Sighvat Björgvinsson. Þessir menn hafa staðið sig afar vel.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að draga það fram að núverandi ríkisstjórn hefur ýtt tveimur framsóknarmönnum (Forseti hringir.) út, Alfreð Þorsteinssyni og Ólafi Erni Haraldssyni. Ég tek það sérstaklega hér upp og (Forseti hringir.) Morgunblaðið gerir þetta líka að umtalsefni í leiðara.