135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu skipta alþjóðaviðskiptin máli og alþjóðlegar fjárfestingar og allt það. Þá erum við komin að því að ræða alþjóðaregluverkið í þeim efnum og hvernig menn eru að þróa það, hver forskriftin hefur verið, hvaða hugmyndafræði hefur ráðið ferðinni. Þar kemur að því sem ég er mjög gagnrýninn á, undirliggjandi hreyfikrafta hnattvæðingarinnar sem eru auðvitað fyrst og fremst stórfyrirtækin, fjölþjóðafyrirtækin og alþjóðafjármagnið, áhættufjárfestingarfjármagnið sem hefur rutt sér braut og sett út olnbogann í heiminum og er að ná æ meira tangarhaldi á auðlindum og mörkuðum í þróunarríkjum. Forskriftin sem fylgt hefur verið hefur í allt of miklum mæli verið gagnrýnislaus og hrár kapítalismi, einkavæðing þar sem það er vanrækt að byggja upp innviði og efla velferð. Jafnvel er lítt þróuðum ríkjum uppálagt, eða a.m.k. var, af Alþjóðabankanum og fleiri slíkum að skera niður þann litla infrastrúktúr sem þau hafa á sviði menntunar, heilsugæslu o.s.frv. Nú hafa menn viðurkennt viss mistök í þeim efnum en regluverkið er samt stórgallað að þessu leyti, bæði sú pólitík sem Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgja, Alþjóðaviðskiptastofnunin og í raun forskrift Doha-viðræðnanna, þar vantar í allt of miklum mæli hinar félagslegu víddir, umhverfisþættina o.s.frv. Þetta hefur leitt til þess að sjálfsprottnar hreyfingar eru komnar fram úr alþjóðastofnununum að þessu leyti og eru að ryðja brautina fyrir fyrirbæri eins og „fair trade“ í viðskiptum, að menn geti fengið vottað að þeir stundi félagslega ábyrga fjárfestingarstefnu. Við þurfum þess konar áherslur í stað þess hnattvædda græðgiskapítalisma sem hnattvæðingin því miður í allt of miklum mæli er.