135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:55]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum verið sammála um það, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og ég, að það er mikilvægt að við beitum afli okkar og þrótti til að byggja upp innviði fátækra ríkja, hjálpa þeim til sjálfsbjargar og greiða jafnframt fyrir efnahagslegri þróun þeirra með því að byggja upp forsendur fyrir fjárfestingu í ríkjunum og uppbyggingu sjálfbærs efnahagslífs. Það er einmitt það sem ég fagna sérstaklega í áherslum hæstv. utanríkisráðherra í ræðu hennar áðan, hversu heilsteypt sýn liggur að baki því frumkvæði sem hún leggur til að íslensk stjórnvöld taki í uppbyggingu og samskiptum við þróunarríkin.

Þá þýðir það væntanlega líka að við verðum að fara að taka okkur tak sjálf og þá verðum við að leggja af þann leiða sið sem við höfum stundað núna árum og áratugum saman á alþjóðlegum vettvangi þegar rætt er um frelsi í viðskiptum að fyrir hádegi sjáum við á því öll tormerki að nokkurt ríki megi hafa nokkurn toll á fiski en eftir hádegi setjumst við niður með ríkustu ríkjum heims og gerum okkur þar far um að útiloka fátæk ríki frá mörkuðum okkar með landbúnaðarvörur. Þessum tvískinnungi verður að ljúka. Við verðum að ganga á undan með góðu fordæmi. Ég held að það sem hv. þingmaður sagði áðan um mikilvægi þess að hægt sé að votta félagslega ábyrg viðskipti og annað slíkt sé mikilvægt. En við megum gæta okkur á því að láta aldrei slíka merkimiða verða innihaldslausa þannig að þeir geti orðið skálkaskjól þeirra sem ekki vilja í reynd frjáls viðskipti. Frjáls viðskipti, aðgangur þróunarríkja að okkar mörkuðum, eru besta þróunarhjálpin sem við getum veitt.