135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:53]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir gagnmerka og ágæta ræðu um utanríkismál. Í fyrsta lagi tók ég eftir því að hæstv. utanríkisráðherra vék að því og sagðist leggja kapp á það að utanríkisþjónustan þróaðist í takt við nýja tíma, hún þyrfti bæði að laga sig að breyttum aðstæðum og vera í takt við það samfélag sem hún er sprottin úr.

Ég er sammála þessum áherslum. En spurningin er hvert sé inntak þessara orða, hvað sé átt við. Andstætt því sem hefur verið að gerast og þeirri tækniþróun sem hefur orðið og þeirri þróun varðandi það að fjarlægðir eru alltaf að verða styttri eða auðveldara að komast á milli þá er fjölgun sendiráða, fjölgun sendistarfsmanna erlendis, eitthvað sem er algjörlega andstætt því sem tækniþróun síðustu tíma hefur verið að bjóða upp á. Hvaða tilgangi þjónar það að stofna nýtt sendiráð nánast árlega og jafnvel mörg sum árin? Hvaða tilgangi þjónar að hafa sendiráð syðst í Afríku? Hvaða tilgangi þjónar að stofna sendiráð í landi sem við höfum átt góð og farsæl viðskipti við í gegnum tíðina eins og Japan og hvaða þýðingu hefur að hafa sendiráð á Norðurlöndum?

Er ekki kominn tími til þess að hugsa öðruvísi hvernig við skipuleggjum samstarf við helstu vina- og bræðraþjóðir þar sem við getum komið hlutunum fyrir með miklu einfaldari og ódýrari hætti? Það er fyrst og fremst spurningin um það, og ég skil það þannig, að hæstv. utanríkisráðherra velti því fyrir sér hvernig sé hægt að koma á aukinni skilvirkni með minni tilkostnaði. Þá hljótum við að staldra við það hvort ekki sé möguleiki á því að hugsa málið með nýjum hætti, fara út úr þeim gamla þjóðfélagsveruleika sem varð til á miðöldum og fara að miða við það að sendimenn séu þar sem þeir þurfa að vera en ekki annars staðar. Það er spurningin um að menn taki upp breytt vinnubrögð þar sem miðað sé við ráðdeild og sparnað sem einkenni utanríkisþjónustuna og ég tel að þar þurfi að gera þá bragarbót á að fylgt verði þeim leikreglum. Ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra að það þurfi breytt vinnubrögð, spurningin er um að fá nánari skýringu á því við hvað sé átt.

Í ræðu sinni fjallaði hæstv. utanríkisráðherra um mannréttindi og hægt er að taka undir það sem þar var sagt. En það vantaði mikilvægt atriði í því sambandi og það er sú hræðilega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir um nútíma þrælahald og verslun með fólk. Það vill þannig til að það eru 200 ár — eða þann 25. mars 1807 — síðan breska þingið samþykkti sérstaka tillögu sem gerði ólöglegt að ensk skip flyttu þræla og gerði jafnframt ólöglegt fyrir breskar nýlendur að flytja inn þræla. Danir höfðu reyndar samþykkt sams konar reglur þremur árum áður en 25. mars árið 1807 kom fram viðmiðunar- eða tímamótasamþykkt þar sem miðað er við að þrælahaldi hafi verið útrýmt í Evrópu. Samt sem áður eru fleiri þrælar í heiminum núna árið 2007 en nokkru sinni áður.

Skýrsla frá Alþjóðavinnumálastofnuninni telur að þrælar í heiminum í dag séu að minnsta kosti 12 milljónir, rúmlega 12 milljónir manns. Aðrir segja að þeir séu um 27 milljónir. Meiri hluti þeirra er í Asíu og Suður-Ameríku og það er áætlað að meðalverð á þræli geti verið allt niður í um 100 dollara. Verðið getur þó verið mismunandi eftir því hvaða þjónustu ætlast er til þannig að um getur verið að ræða töluverðan kostnað ef um slíkt er að ræða.

Algengasta tegund þrælahalds er vinnuánauð þar sem vinna er tekin sem endurgreiðsla fyrir lán. Það er algengt á Indlandi, í Pakistan og Nepal svo dæmi séu tekin, til dæmis á Indlandi meðal fólks úr lægstu stétt í hindúasið, þ.e. þeirra ósnertanlegu. Og þegar menn tala um fjölmennasta lýðræðisríki í heimi þá er það það sama ríki sem mannréttindasamtök vítt og breitt gera alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið er að málum varðandi réttleysi þeirra sem mest þurfa á vernd að halda.

Önnur tegund af þrælahaldi sést í Súdan. Í Brasilíu þurfa smábændur að hreinsa frumskóginn meðan byssukjöftum er að þeim beint og í Gana eru litlar stúlkur boðnar fram sem kynlífsleikföng. Í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum er fólk frá Austur-Evrópu, Kína og Víetnam og annað verkafólk sem er innflytjendur þvingað til að vinna gegn vilja sínum við vændi, ýmis landbúnaðarstörf og/eða verslunarstörf. Sala á fólki er eitt af því sem hefur verið í hvað örustum vexti í heimi afbrotanna. Hundruð þúsunda eru seld á ári hverju, miklu fleiri konur en karlar og sum börn, flestar vegna kynlífsþrælkunar. Sala á fólki er talin nema milljörðum dollara á ári og litlu lægri upphæð en sala á eiturlyfjum. Þrælahald heyrir því miður þar af leiðandi ekki fortíðinni til. Það er staðreynd í heiminum í dag.

Ég tel að við Íslendingar eigum að hafa það sem forgangsverkefni að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir þrælahald og stuðla að því að settar verði reglur til þess að koma í veg fyrir sölu á fólki. Ég tel það vera forgangsatriði að við berjumst gegn þessum ósóma sem því miður viðgengst enn þá. Ég hef talað um það á öðrum stað og öðrum vettvangi að spurningin sé um það hvort ástæða sé til þess að koma á sérstakri lögregludeild eða þá að helga ákveðna deild, til dæmis Interpol, til þess að fjalla sérstaklega um þessi atriði og bregðast við þeirri miklu vá og því hræðilega óréttlæti sem fer fram og algjörri mannréttindaskerðingu sem á sér stað með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði um NATO og friðargæsluna, að það sé eðlilegt að Ísland axli ábyrgð og taki sinn skerf. Það er hins vegar spurningin um að þess sé jafnan gætt að það sé innan borgaralegra marka. Við erum vopnlaus þjóð, höfum verið vopnlaus þjóð og ég vænti þess að allir alþingismenn séu sammála um að þannig eigi það að vera. Að við viljum ekki blanda okkur í hernaðarátök en séum tilbúin til að stuðla að hjálpar- og friðarstarfi hvar sem vera skal.

Það er svo annað mál þegar talað er um Atlantshafsbandalagið annars vegar sem varnarbandalag og hins vegar sem öryggisbandalag. Spurningin er: Hver er munurinn? Hvaða áherslumunur er á því? Jú, það er annars vegar það að NATO sem varnarbandalag fór ekki í herför til annarra þjóða. Það hefur hins vegar breyst þannig að breytt hefur verið um áherslur og breytt hefur verið um skilmála hvað Atlantshafsbandalagið varðar. Ég tel að það hafi verið óheppilegt. Ég hefði talið að þær þjóðir Atlantshafsbandalagsins sem hefðu viljað fara þá leið hefðu ekki átt að gera það innan vébanda Atlantshafsbandalagsins. Að mínu viti rýrði það tiltrú á Atlantshafsbandalaginu sem varnarbandalagi og mér finnst það miður.

Ég er algjörlega ósammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann sagði að við hefðum aldrei átt erindi í Atlantshafsbandalagið. Þvert á móti tel ég að það hafi verið mikið gæfuspor fyrir Íslendinga að hafa á sínum tíma gengið í Atlantshafsbandalagið. Á meðan á þurfti að halda og kalda stríðið geisaði var Atlantshafsbandalagið tvímælalaust öflugasta vörnin og friðarbandalagið í veröldinni.

En spurningin er: Hvað er afsakanlegt að ganga langt og hvað viljum við teygja okkur langt? Er eðlilegt að ungt fólk á Vesturlöndum, í Evrópu og Norður-Ameríku hætti lífi sínu í óskilgreindri styrjöld í Afganistan? Af hverju? Hvert er markmiðið? Hvernig sjá menn endinn á því stríði? Hver eru hin skilgreindu markmið? Það er þar sem mér finnst á vanta og meðan slík markmið eru ekki til og hafa ekki verið sett er óafsakanlegt að setja ungt fólk í hættu þannig að það þurfi jafnvel að deyja fyrir málstað sem enginn veit nákvæmlega hver er.

Ég hef verið andvígur framboði Íslands til öryggisráðsins. Ég hef talið okkur eiga lítið erindi í sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Menn standa hins vegar iðulega frammi fyrir orðnum hlut og við því er lítið að gera. Það er ljóst að kosningabarátta Íslands er komin á fulla ferð, hefur staðið í langan tíma, og það er sjálfsagt að styðja við það sem hægt er að gera þó að ég hafi verið ósammála því að lagt yrði út á þessa braut. Það vaknar hins vegar spurning um hvernig starf öryggisráðsins eigi að vera, hvaða tilgangi það þjónar og hvernig Íslendingar ætla að beita sér í því sambandi.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom aðeins inn á sjónarmið varðandi réttindi Palestínumanna og hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra hefði ekki talað við Hamas-samtökin í ferð sinni til Palestínu á sínum tíma. Það var spurning um hvort eðlilegt væri að flokka Hamas-samtökin sem hryðjuverkasamtök, það er alltaf spurning um það hvernig menn hafa skilgreiningar. Vandamálið við Hamas-samtökin felst í því að það er yfirlýst markmið þeirra að útrýma Ísraelsríki. Það er því í sjálfu sér spurning hvernig þau samtök geta tekið þátt í friðarumleitunum sem verið er að fara út í. Hitt er annað mál að þegar friðarferlið hófst við Palestínumenn á sínum tíma, og Yasser Arafat var þá leiðtogi PLO-hreyfingarinnar, voru þau markmið líka til staðar hjá PLO. Í sjálfu sér er því ekki eðlilegt að loka á Hamas-samtökin og þeirra stjórn með þeim hætti sem gert var.

Mannréttindabrotin sem eru framin gagnvart Palestínufólki, þar sem börn eru drepin, þar sem fólkið er múrað inni, þar sem herraþjóðin ræður því hvort fólk fær að koma inn í landið eða fara út úr landinu, eru óþolandi. Þarna er algjört réttleysi fólksins sem er innan múranna. Það fær ekki að vinna, það fær ekki að mæta í vinnuna sína nema herraþjóðin leyfi. Hafi einhvern tímann verið til apartheid-stefna þá er hún í gildi núna. Ísraelsmenn beita henni gagnvart Palestínuaröbum og við Íslendingar eigum að fordæma slíka stefnu.

Hæstv. utanríkisráðherra fjallaði um það að við deildum fullveldi okkar með öðrum þjóðum og vísaði þá helst til Sameinuðu þjóðanna. Það er rétt að nánast í hvert skipti sem við gerum samninga á vettvangi utanríkismála þá deilum við einhverjum hluta fullveldisins. Stærsti samningurinn hvað það varðar, þar sem við deildum verulegum hluta fullveldisins, var EES-samningurinn. Þar var það spurning hvort við hefðum átt að fara jafnlangt og gert var. Ég fer ekki lengra út í það, það verður rætt á öðrum sviðum.

Einnig væri ástæða til að ræða frekar varnarþörf Íslands. Vandinn í því sambandi er að mínu mati sá að skilgreiningu á varnarþörfinni vantar. Til hvers eigum við að vera að taka á móti erlendum flugsveitum þar sem fólk er að æfa sig? Hvaða tilgangi þjónar það fyrir varnir landsins? Hvar er ógnin? Ég sé hana ekki. Ég sé ekki að hefðbundinn her hafi nokkra þýðingu fyrir okkur eins og staðan er nú.

Hæstv. utanríkisráðherra talaði um opna markaði í ræðu sinni og lagði áherslu á gildi þess að frjálsari heimsviðskipti gætu átt sér stað. Ég spyr: Með hvaða hætti ætla Íslendingar að beita sér í því efni? Ætlum við að berjast fyrir frjálsum heimsviðskiptum? Punktur. Eða ætlum við að gera það með víðtækum takmörkunum?

Landbúnaðarmálin hafa gjörsamlega hamlað því að Doha-viðræðurnar yrðu leiddar til lykta. Viðskipti með landbúnaðarvörur eru ekki nema 8% heimsviðskiptanna en þau viðskipti hafa verið sá gordíonshnútur sem ómögulegt hefur reynst að leysa. Fulltrúar okkar Íslendinga hafa stöðugt gert kröfur um frjáls viðskipti með sjávarfang en sem hæstu tolla og mesta vernd fyrir landbúnaðarvörur. Þá er það spurningin: Hvernig getum við sagt að þetta eigi að vera svona?

Virðulegi forseti. Ég tel að Ísland verði að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í baráttu fyrir mannréttindum, gegn mansali og þrælahaldi, gegn glæpum, fyrir frjálsum heimsviðskiptum og gegn hungri og örbirgð í heiminum. Það eru þau atriði sem við eigum að leggja áherslu á ásamt því að koma góðu til leiðar þar sem við getum gert það.