135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:12]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili viðhorfi hv. þingmanns um skilvirka utanríkisþjónustu en ég deili ekki nauðsynlega þeim ályktunum sem hann dregur. Sendiráð eru mjög skynsamleg fyrirbæri. Það eina sem þarf að tryggja er að mannaflinn þar sé í samræmi við þarfir og allir sem séu sendir til starfa geti sinnt verkefnum sínum vel. Það er fullkomlega eðlilegt og mjög æskilegt að senda menn til langdvalar í útlöndum en þess þarf að gæta að ekki sé verið að senda fólk til starfa erlendis nema fyrir því séu góð og gild rök.

Það skiptir miklu máli að hvetja til þess að utanríkisþjónustan verði í sífellt ríkari mæli skilgreind sem tæki til að ná ákveðnum markmiðum, að menn geti flutt viðbúnað til og fært á milli staða eftir því sem þörf er á hverju sinni. Að menn hætti að líta svo á að uppbygging þjónustunnar á erlendri grundu hafi verið klöppuð í stein eins og vissulega var í eina tíð — þá voru ákveðnir hlutir gefnir hvað varðaði uppbyggingu utanríkisþjónustunnar — og fari í staðinn að líta á þau markmið sem ráðherra og ríkisstjórn setja á hverjum tíma og hagi uppbyggingu starfsins í samræmi við það. Framboðið til öryggisráðsins er mjög gott dæmi um það. Nú þarf að gera skipið fært um að stefna þá leið sem farin verður.