135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:32]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir góða og efnismikla ræðu í morgun og einnig fyrir góðar umræður í dag í kjölfar þeirrar ræðu. Við fengum gott yfirlit yfir það sem verið er að gera í utanríkisráðuneytinu undir stjórn hæstv. ráðherra um breyttar áherslur og verkefnin fram undan. Það er greinilegt að það leika ferskir vindar um utanríkisráðuneytið þessa dagana og ég er mjög ánægð með þá áherslubreytingu sem orðið hefur á þeim bæ.

Hæstv. ráðherra benti á það í morgun og það er aldrei of oft ítrekað að heimurinn er að minnka, við erum að verða hluti af heimsþorpinu, eða eins og hún nefndi í ræðu sinni að heimsmálin eru heimamál og heimaverkefni eru heimsverkefni. Hæstv. ráðherra nefndi dæmi sem mér finnst vera dálítið dæmigert fyrir þessa stöðu en það er einmitt verkefnið sem hæstv. heilbrigðisráðherra er að taka á núna sem er lyfjaverðið og hvernig við getum hagnast á því að vera í alþjóðlegu samstarfi hvað það varðar og að Íslendingar muni hagnast á því og búa við lægra lyfjaverð hér á landi en við búum við í dag.

Mig langaði aðeins til að nefna nokkur atriði sem hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni. Það eru þróunarsamvinnumálin, málefni norðursvæðanna og loks störfin í þágu friðar en þar hefur verið lögð sérstök áhersla á að auka hlut og aðkomu kvenna. Minnt var á það í umræðunni í dag að við höfum verið að styðja við lýðræðisþróun. Þar má nefna verkefni sem við áttum aðild að í Pristína þar sem konur voru studdar og hjálpað til þátttöku m.a. í stjórnmálum og fleira mætti auðvitað telja í þeim efnum. Ég er sérstaklega ánægð með hvernig áherslurnar í utanríkisráðuneytinu hafa breyst í þá veru að styðja við almenna borgara, konur og börn á ófriðarsvæðum og ég tel það vera mjög mikilvæga stefnubreytingu.

Ég nefndi áðan þróunarsamvinnuna og það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra í morgun að mikil vinna er í gangi á vegum utanríkisráðuneytisins við að móta nýja rammalöggjöf varðandi starf Íslands gagnvart þróunarríkjunum en í sumar hafa verið kallaðir til sérfræðingar til að vinna að þessu verki og einnig var nefnd aðild okkar að DAC og breytingum á skipulagi hvað þetta varðar.

Ég átti þess kost í sumar að kynna mér þróunarstarf sem við Íslendingar eigum aðild að einmitt í Malaví eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á í ræðu sinni og sá þar hvað við getum lagt mikið af mörkum fyrir tiltölulega lítið. Þar eiga ekki einungis íslensk stjórnvöld í hlut heldur einnig félagasamtök og það hefur skipt sköpum hvað varðar menntun, heilbrigðisþjónustu og aukið sjálfstæði kvenna. Mig langar aðeins, af því að ég átti þess kost að fara til Malaví og kynna mér þetta, að bregða upp mynd af því sem ég upplifði þegar ég kom þangað og heimsótti framhaldsskóla sem við Íslendingar höfum styrkt, bæði var búið að senda húsgögn til skólans og sömuleiðis bókakost sem var ákaflega rýr þarna. Þetta er nokkur hundruð barna framhaldsskóli og þegar ég kom þarna ásamt fleiri Íslendingum voru félagasamtök héðan að gefa skólanum tölvu og það voru mikil hátíðahöld. Þegar við komum inn í skólastofuna var búið að skrifa á lúna skólatöflu lítið ljóð sem einhver nemandinn hafði skrifað þar sem þakkað var fyrir þróunarhjálpina frá Íslandi. Og ljóðið í þýðingu minni hljóðar svona:

Hver er vinur?

Vinur er sá sem í raun reynist.

Hann færir okkur brauð þegar hungur sverfur að.

Hann gefur okkur tölvu þegar við eigum ekki ritvél.

Hann gefur okkur rafmagn og ljós þegar við erum í myrkri.

Hann gefur okkur bækur þegar okkur langar til að læra.

Sannur vinur er vinur í raun.

Þessi skóli hafði einmitt fengið rafmagn frá Íslendingum. Leidd var rafmagnstaug inn í skólann þannig að þau gátu setið lengur en til klukkan fimm á daginn við að læra. Þetta gerði þeim líka kleift að nota tölvuna sem kom frá Íslandi sem skólastjórinn ætlaði að læra á til að geta nýtt í skólanum. Það voru mikil hátíðahöld þegar þessi gjöf frá Íslandi barst til skólans í Malaví, börnin sungu og dönsuðu og þökkuðu Íslandi og Íslendingum fyrir þetta framlag sem breytti svo miklu en kostaði okkur tiltölulega lítið.

Vegna umræðunnar áðan um afstöðu þeirra Sigurðar Guðmundssonar og Sigríðar Snæbjörnsdóttur sem þarna voru að störfum fyrir okkur, um mikilvægi þess að við sendum ekki eingöngu peninga heldur styrkjum og menntum þær þjóðir sem við erum að styðja við, þá tek ég undir það. Það er einmitt það sem við erum að gera. Við sendum fagfólk og sérfræðinga til þeirra þróunarríkja sem við erum að styðja til að geta síðan hjálpað sér sjálf. Það er mjög mikilvægt og það er líka mikilvægt að við fylgjum því fé eftir sem við sendum til þróunarlandanna þannig að það nýtist sem best.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi reynslu mína af því þegar ég kom inn í skólastofu í Cape McClear við Malavívatn sem var þéttsetin konum og börnum. Þangað höfðu konurnar komið gangandi með börnin sín á bakinu eða í fanginu og leiddu önnur sér við hönd langa leið, jafnvel tveggja tíma göngu til að koma í lestrarkennslu á vegum Íslendinga á þessu svæði. Börnin lágu sofandi á gólfinu eða í fangi mæðra sinna og konurnar lásu upp úr lúnum bókunum. Sömuleiðis var verið að kenna þeim að reikna þannig að þær gætu farið sjálfar á markaðinn og væru ekki háðar eiginmönnum sínum þegar þær keyptu inn. Það er geysilega mikilvægt fyrir sjálfstæði þeirra kvenna sem búa á þessum svæðum að fá þessa menntun. Þær áttu ekki orð yfir þakklæti til okkar fyrir að gefa þeim kost á að læra, læra að reikna, skrifa og lesa. Þetta er líka mikið innlegg í jafnrétti kynjanna á þeim svæðum sem við styðjum við. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér það fyrr en ég sá hvað þetta er þakklátt framlag og mikilvægt. Þarna er líka sjúkrahús sem við höfum reist og heilsugæslustöð og við vorum með okkar færasta fólk að störfum þarna sem var landlæknir á þeim tíma. Ég tel að einmitt slík verkefni eins og við erum með þarna í Afríku séu ein þau mikilvægustu sem við getum lagt til þróunarmála,

Vegna áherslunnar á málefni kvenna og barna þá fagna ég því líka hver áherslubreytingin hefur orðið í sambandi við friðarmálin þar sem áherslan er lögð á börn, konur og almenna borgara, sérstaklega eftir Íraksstríðið, því að auðvitað berum við þar ákveðna ábyrgð eftir að stjórnvöld lýstu yfir stuðningi við það stríð þó svo að við hefðum ekki verið spurð um það mál, okkur ber að hjálpa því fólki sem líður eftir það hörmungarástand sem ríkt hefur í Írak. Hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt áherslu á að styðja við konur og börn í gegnum hin ýmsu samtök sem hafa verið að sinna því verkefni og þekkja vel til verka, eins og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og fleiri samtök. Um 4 milljónir Íraka eru í rauninni á vergangi, eru flóttamenn. Stór hluti þeirra er á flótta innan Íraks og aðrir í nágrannaríkjunum, t.d. Sýrlandi, Jórdaníu, Egyptalandi og Líbanon. Sendir hafa verið fjármunir til að styðja við menntun írakskra barna á þessum svæðum vegna þess að varað hefur verið við því að kynslóð írakskra barna sem ekki fær neina menntun sé að vaxa úr grasi og sé afskipt, en talið er að um hálf milljón írakskra flóttabarna hafi ekki aðgang að skóla. Við höfum einmitt stutt verkefni í þágu þessara barna sem ég tel vera mjög mikilvægt. Sama á við um stuðning við Rauða krossinn sem hefur sinnt bæði öldruðum, fötluðum og munaðarlausum börnum í Írak. Þetta eru mjög mikilvæg og góð verkefni sem ég tel að vera eigi fyrirmynd þeirra verkefna sem við eigum að sinna áfram. Auðvitað getum við gert meira af þessu og ég heyrði á ræðu hæstv. ráðherra í morgun að það er einmitt vilji hennar að unnið verði áfram í þessa veru í ráðuneytinu.