135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:45]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að taka undir með hæstv. utanríkisráðherra hvað það varðar hvað við Íslendingar erum heppin að státa af frábæru starfsfólki utanríkisþjónustunnar, ráðuneytisins og hér innan veggja Alþingis, á alþjóðasviði. Ég þykist þekkja örlítið af eigin raun hvað við Íslendingar getum verið ánægð með það færa fólk sem vinnur fyrir okkur á þessum vettvangi.

Það er auðvitað þannig að hin pólitíska lína, stefna okkar Íslendinga í utanríkismálum frá a til ö, á að koma frá hinum lýðræðislega kjörnu fulltrúum en ekki embættismannakerfinu. Það er mikils virði þegar hlutirnir eru stokkaðir svolítið upp og breytt stefna tekur við. Spurningin er hvort við stöndum raunverulega frammi fyrir slíkum hlut. Ég held ekki.

Stóra spurningin er: Hver viljum við Íslendingar vera á hinu stóra og viðsjárverða taflborði heimsmálanna? Það er ýmislegt hægt að læra af skáklistinni og eitt af því er að þekkja eigin styrkleika, veikleika og takmarkanir og um leið að meta stöðuna eins og hún er, ekki eins og hún ætti að vera eða gæti verið heldur eins og hún er, hvaða leikir eru í stöðunni eins og hún er uppi.

Hver er raunveruleg staða Íslands í alþjóðamálum? Staðan er að sjálfsögðu sú að við erum pínulítil þjóð og í raun mjög áhrifalítil á hinu stóra taflborði. Við getum fyrst og fremst haft góð áhrif með því að fara fram í verki sem fyrirmynd og vera rödd siðferðisins í heimsmálum. Alþjóðapólitíkin litast fyrst og fremst af því að allir eru í þessum leik á forsendum eiginhagsmuna. Allir. Og við höfum það frelsi sem lítil þjóð, sem tiltölulega áhrifalaus þjóð, að geta verið rödd siðferðisins.

Að sjálfsögðu ber okkur alltaf að verja hagsmuni okkar. Það er ein af grundvallarskyldum okkar. En við höfum líka fullt af tækifærum til að vera rödd siðferðisins, rödd lítilmagnans og öðruvísi rödd en gengur og gerist í þessum eiginhagsmunaleik. Þá langar mig að spyrja: Erum við sú siðferðisrödd, t.d. þegar við erum áfram innan hernaðarbandalagsins NATO? Mitt svar við því er auðvitað mjög einfalt: Nei, við erum ekki sú rödd. Við erum áhrifalítill meðleikari stórvelda og hernaðarbrölts.

Ég skil satt best að segja ekki alveg þetta tal um það að NATO hafi breyst úr varnarbandalagi yfir í að vera öryggisbandalag. Hvað þýðir þetta? Við eigum ekki að taka þátt í svona villandi orðaleik heldur segja hlutina eins og þeir eru. Ef við lítum yfir sögulega þróun NATO sjáum við það öllu fremur hafa breyst úr einhvers konar svokölluðu varnarbandalagi, hernaðarbandalagi, yfir í það að vera frekar árásarbandalag. Þess bera dæmin merki, ný dæmi. Það er vissulega hægt að skilja ástæður okkar fyrir því að ganga í NATO á sínum tíma, á tímum kalda stríðsins, jafnvel þótt við höfum verið því mótfallin. Ég skil hins vegar ekki ástæðuna fyrir því í dag.

Við getum haldið áfram. Það er himinhár kostnaður sem öllum þessum hernaðardraumum fylgir. Og þegar talað er um að vega og meta og vera meðvituð um það hvar styrkleikar okkar eru, hvar veikleikar og hvar við höfum raunveruleg áhrif getur örlítið brot af þessum kostnaði, ef hann færi til uppbyggingar og góðra verka Íslendinga hjá okkar næstu nágrönnum, Grænlendingum, raunverulega gert gagn í heimsmálum. Við viljum vera svo stór og mikilvæg og þykjumst vera það — en við gætum gert gagn hjá fólki sem lítur upp til okkar Íslendinga og fyrir það sem við stöndum, eins og Færeyingar og Grænlendingar gera.

Ég verð að segja að ég var hjartanlega sammála vini mínum og hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni heitnum sem ég sakna héðan úr þessum sal þegar hann sagði hreinskilnislega að að hans mati væri umsókn Íslands um aðild að öryggisráðinu mistök. Ef ég á að segja mína skoðun á því finnst mér þetta einmitt vera innihaldslaust brambolt og brölt einfaldlega vegna þess að öll svona mál snúast um forgangsröðun. Forgangsröðun okkar á að snúa að því að miðla því sem við erum best í, því sem við höfum raunverulega að gefa. Jafnvel þótt við þykjumst vera hernaðarþjóð með NATO, öryggisþjóð eða varnarþjóð eða hvaða nöfnum sem fólk vill kalla það, getum við gert miklu meira gagn á öðrum sviðum og sannarlega miklu meira gagn á öðrum sviðum en í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Við höfum svo mörgu öðru að miðla, upplýsingum og þekkingu á öðrum sviðum þar sem við erum sérfræðingar. Við erum sem betur fer ekki sérfræðingar í stríðsátökum.

Það er að sjálfsögðu margt sem ég fagna í orðum hæstv. utanríkisráðherra. Ég fagna mjög aukningu fjármuna í þróunarvinnu. Þar komum við aftur að spurningunni um hvað við höfum að gefa. Þar verðum við einmitt líka að vera svolítið á varðbergi. Það er staðreynd að vanhugsuð þróunarvinna hefur í gegnum tíðina leitt af sér mjög neikvæða hluti, eyðileggingu og á vissan hátt hörmungar. Vel meinandi stofnanir sem vaða inn í ólíka menningarheima með hroka og yfirlæti og ætla sér að kenna „þessu fólki“ geta á ýmsan hátt gert mikinn skaða. Ég treysti að sjálfsögðu okkar fólki til góðra verka á þessu sviði og ég treysti hæstv. utanríkisráðherra til að passa vel upp á þetta. Það verður að gera það með sérstaklega góðum hætti og vönduðum. Ég tala ekki um þegar við ætlum að fara að leggja meiri áherslu á þennan málaflokk eins og hefur verið síðustu ár.

Í þessum efnum verð ég að segja, virðulegi forseti, að það vekur mann til umhugsunar að sjá að stofna eigi sérstakan viðskiptaþróunarsjóð en eins og fram kemur í máli hæstv. utanríkisráðherra hefur viðskiptalífið ört vaxandi áhuga á þróunarstarfi. Ég spyr mig einfaldlega: Hvers vegna skyldi það vera? Á hvaða forsendum er áhugi viðskiptalífsins á þróunarstarfi til kominn? Það er nefnilega tilfellið að víða í hinum stærri löndum hafa fyrirtæki komið sér inn í þróunarmál og þróunaraðstoð til þess fyrst og fremst að skapa sjálfum sér nýja markaði, nýjar gróðatengingar, ný viðskiptatengsl til þess eins að græða, ekki endilega til að bæta heiminn eða skilja betur við umhverfið eða þau samfélög sem þau koma inn í.

Aftur treysti ég því að sjálfsögðu að hæstv. utanríkisráðherra og hennar fólk búi vel um hnútana í þessum efnum en allir verða líka að vera mjög meðvitaðir um þau vandasömu verk sem þarna eru til staðar. Það þarf að vanda til verksins, sýna skilning og djúpt innsæi sem alltaf verður að hafa að leiðarljósi í öllum þessum málum. Aukið peningaflæði getur leitt til góðs ef því er stýrt á réttan hátt en það getur líka leitt til ills ef því er ekki stýrt af þekkingu og visku.

Það er einmitt ágætt að staldra þá við hnattvæðinguna og fögur orð um frelsi viðskiptanna. Staðreyndin er sú eins og t.d. í Doha-viðræðunum sem hæstv. ráðherra nefnir að þar fara allir fram á eiginhagsmunaforsendum. Og hverjir sigra í þeim leik? Það eru stórveldin, stóru blokkirnar. Þegar talað er um að frjáls viðskipti komi alltaf öllum til góða, sérstaklega þeim fátæku, sýnir reynslan okkur að það er bara ekki satt. Það hefur oft komið þeim hörmulega þegar þau eru knúin til að opna markaði sína upp á gátt, knúin til að einkavæða, knúin til að vera svokallaðir stoltir þátttakendur í frjálsum viðskiptum þegar sterku aðilarnir, sterku viðskiptahagsmunirnir, sterku löndin koma til skjalanna og sópa upp auðnum. Ef Ísland vill raunverulega vera málsvari hinna fátæku í heiminum, þeirra sem höllum standa fæti, verðum við líka að setja spurningarmerki við leikreglurnar í leiknum, m.a. í krafti stofnana eins og Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ég nefndi áðan að það væri ýmislegt sem ég gæti fagnað í þessum efnum og ég fagna svo sannarlega því að um norðurskautið og norðurskautssamstarfið sé talað sem kjarnamál í íslenskri utanríkisstefnu. Ég var svo heppin að fá að starfa þó nokkuð á þessu sviði og það er mjög sérstakt með norðurskautssamstarfið að það er alþjóðlegt og varð fyrst og fremst til utan um umhverfismál og réttindi lítilmagnans, réttindi frumbyggja. Þar skiptir öllu máli að við Íslendingar sýnum ábyrgð og séum réttu málsvararnir, málsvararnir fyrir hinum góðu gildum. Hvernig getum við það helst? Þarna eru stór ríki í þessu samstarfi, Rússland, Ameríka, Kanada og fleiri. Við getum helst verið áhrifavaldar með því að sýna í verki hug okkar. Ég verð að segja að mér þótti, sérstaklega þegar kom að norðurslóðunum, ræða hæstv. utanríkisráðherra heldur rýr, mjög rýr hvað varðar umhverfismálin. Norðurslóðirnar fjalla fyrst og síðast um þau. Ef við ætlum að hafa einhver áhrif eigum við t.d. að vera fremst í flokki hvað varðar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum en ekki draga lappirnar og tala um tækifæri sem í því felast eins og stundum hefur verið gert. Þannig höfum við raunveruleg áhrif, með því að sýna í verki hvað við getum og hvað er hægt með góðum vilja. Þar eigum við svo sannarlega um langan veg að fara, virkilega langan.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig einfaldlega til að taka undir þær áherslur sem komu fram varðandi það að Ísland sé málsvari mannréttinda og ekki síst málsvari kvenna og barna, málsvari jafnréttis. Þar er einmitt svið þar sem við höfum einhverju að miðla, þar sem við getum miðlað af þekkingu okkar og reynslu. Þá langar mig í anda gamalla baráttukvenna, flottra kvennalistakvenna og annarra, að hvetja um leið og við verðum málsvarar kvenna og barna, kvenna sem eru fórnarlömb hörmulegra stríðsátaka, til þess að ef við ætlum að vera samkvæm sjálfum okkur verðum við líka í verki og allri reynd að vera málsvarar friðar sem láta hin karllægu hernaðarbandalög lönd og leið.