135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:59]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð hugsi yfir ræðu hv. þingmanns. Hún nefndi þörf okkar á að tala röddu siðferðisins en gagnrýndi líka þá sem kæmu og segðu þróunarríkjum fyrir verkum og flyttu þeim siðaboðskap. Mér finnst ákveðin þversögn í þessu. Á hinn kantinn talaði hún um að við ættum að sýna fordæmi í verki. Þar er ég henni fullkomlega sammála. Þess vegna skil ég mjög illa þau einkunnarorð sem hún valdi öryggisráðsframboðinu sem er innihaldslaust brambolt og brölt.

Ég hef átt því láni að fagna að vera mikið á alþjóðavettvangi um langa hríð. Ég hef aldrei séð af Íslands hálfu talað með sama hætti og af jafnmiklu viti og miklu erindi til fátækra ríkja eins og ég sá fulltrúa okkar gera innan ramma öryggisráðsframboðsins í New York nú nýverið.

Ég fullyrði að sú stefnumótun sem hefur átt sér stað í utanríkisráðuneytinu í tengslum við framboðið sé algjört nýmæli í íslenskri utanríkisstefnu. Það miðar að því að hjálpa ríkjum sem eru fátæk og þurfa að gera tvennt, ná stjórn á auðlindanýtingu sinni í sjávarútvegi annars vegar og nýta orkuauðlindir sínar hins vegar, hjálpa þeim til þess, vísa veginn fram á við, sýna í verki hverju við höfum áorkað og leitast við að hjálpa þeim áfram með þeim hætti.

Í því efni held ég að mjög mikilvægt sé að við leitum einnig samstarfs við fyrirtæki því að þau hafa reynt hlutina á eigin skinni og hafa unnið verkin. Það er því mjög mikilvægt að Ísland sýni fordæmi sem byggist á því að við útskýrum hvað það er sem við höfum gert vel og reynum að hjálpa öðrum ríkjum með því að (Forseti hringir.) sýna þeim okkar góðu verk.