135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:09]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða skýrslu um utanríkismálin og fagna því tækifæri sem við fáum í þessari umræðu til að fjalla um þau mikilvægu mál sem utanríkismálin eru. Það er rétt eins og fram hefur komið hér í umræðunni að skýrslan sýnir svo ekki verður um villst að hér er yfirgripsmikið mál á ferð og verðug verkefni fram undan.

Umræðan hefur verið ágæt á köflum og ýmislegt markvert komið fram. Í þessum málum sem öðrum erum við hv. þingmenn í flestum tilfellum fulltrúar sömu markmiða. Öll viljum við bæta heiminn og gera hann lífvænlegri. Við viljum sjá frelsi, lýðræði og bræðralag á sem flestum sviðum og á sem flestum stöðum, að ógleymdu jafnrétti. En í þessum atriðum eins og í flestu greinir okkur á um leiðir. Okkur greinir á um hugmyndafræðina, hvernig nálgast eigi viðfangsefnið. En það er nú önnur saga.

Varnarmálin hafa eðlilega verið fyrirferðarmikil í umræðunni enda, eins og allir vita, er ný staða komin upp í þeim málum. Skýrsla ráðherra bar þess keim og fjallaði ítarlega um þau mál. Ég vil rétt í upphafi, án þess að endurtaka það sem hér hefur komið fram, segja að ég tel að þeim málum sé afar vel fyrir komið eins og þau eru í dag. Ég tel að okkur Íslendingum hafi tekist á afar farsælan hátt að bregðast við þeirri stöðu sem upp kom á sínum tíma þegar Bandaríkjamenn ákváðu einhliða að draga herlið sitt til baka þann 15. mars 2006.

Ég tel að öryggis- og varnarmálum Íslendinga sé afar vel fyrir komið í þeirri mynd sem nú er. Varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 og samkomulagið frá því í fyrra, sem gert var við Bandaríkjamenn, aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og þeir samningar sem nú er verið að gera og hafa verið gerðir við grannríki okkar um frekara samstarf í öryggismálum eru hornsteinar utanríkisstefnu okkar hvað varðar öryggis- og varnarmál. Ég fagna því.

Ég tek líka undir með formanni utanríkismálanefndar, sem talaði fyrr í dag, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, um það hversu farsællega yfirfærsla Keflavíkurflugvallar tókst. Mér finnst sérstaklega ánægjulegt, og nú er það kannski gamli Keflvíkingurinn sem talar, að sjá hvernig fyrrum varnarsvæðinu hefur verið breytt í gróskumikið athafna- og atvinnusvæði með menntastofnanir og fleiri spennandi fyrirtæki að hasla sér völl. Það var ekki gefið fyrir fram að þetta mundi takast og vil ég fagna því að málið er á réttri braut. Því er að sjálfsögðu ekki lokið en það er á réttri leið.

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra og hv. öðrum þingmönnum, sem hafa tekið þátt í umræðum, hefur orðið tíðrætt um breytt umhverfi alþjóðamála, ekki síst á sviði varnar- og öryggismála. Þessi mál voru mjög til umræðu á vel heppnuðum ársfundi NATO-þingsins sem fram fór í Reykjavík 5.–9. október sl. Aukið starf þingmanna að öryggis- og varnarmálum, líkt og það sem gerist á vettvangi NATO-þingsins, er ein af þessum stóru breytingum sem einkennir okkar tíma þar sem skilin milli innanríkis- og utanríkismála verða æ óljósari.

Hlutverk þingmanna í mótun og framkvæmd öryggis- og varnarmála hefur aukist stórlega í takt við breytt öryggisumhverfi og öryggismál hafa á undanförnum árum þróast, eins og hæstv. ráðherra fjallaði um í ræðu sinni, frá því að snúast að mestu um hefðbundið hernaðaröryggi og milliríkjaátök yfir í að fjalla meira um hryðjuverkaógn, náttúruhamfarir, umhverfisslys og afleiðingar flóttamannastraums. Hinar svokölluðu óhefðbundnu ógnir hafa ekki síður bein áhrif á öryggi almennra borgara en þær hefðbundnu. Þar er ábyrgð og aðkoma þingmanna mikil vegna þess að þjóðþingin setja lög til að efla varnir og viðbúnað gegn hryðjuverkum. Þjóðþingin setja lög um að styrkja lögreglu og treysta almannavarnir. Þjóðþingin ákveða fjárframlög til varnarmála, veita heimildir til beitingar hervalds og fjalla um og heimila breytta uppbyggingu herja á þeim þingum sem það á við. Hlutverk þingmanna í þessum málaflokki er talsvert. Ég vil því taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og fleirum sem hér hafa talað, m.a. formanni utanríkismálanefndar, um mikilvægi þess að utanríkismálanefnd Alþingis verði efld. Þingið hefur mikilvægu hlutverki að gegna.

NATO-þingið, svo að ég víki aðeins aftur að því, tryggir lýðræðislegt aðhald með starfsemi Atlantshafsbandalagsins og að rödd þingmanna sem kjörinna fulltrúa almennings í hverju landi hafi áhrif á stefnumótun bandalagsins. Það hefur ekki beina aðkomu að ákvörðunartökunni en er mikilvægur milliliður á milli bandalagsins og íbúa aðildarríkjanna.

Mikilvægi þess að halda ársfund NATO-þingsins hér á landi er margþætt. Ég fagna því sérstaklega að okkur hafi tekist að halda þetta með svo miklum sóma sem við gerðum í síðasta mánuði. Þar gafst einstakt tækifæri til að kynna fyrir NATO-þingmönnum stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi og það hvað Íslendingar geta lagt af mörkum til bandalagsins.

Í öðru lagi var fundurinn í Reykjavík vettvangur til þess að beina sjónum NATO-þingmanna að öryggismálum hér á norðurslóðum í víðara samhengi. Ég vil því fagna því sem fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að málefni norðurslóða hafi verið sett í forgang í ráðuneytinu og nú sé unnið að nýrri stefnumótun á því sviði. Á fundi NATO-þingsins kom fram, í máli framkvæmdarstjóra NATO, Jaap de Hoop Scheffers, að öryggismál norðurslóða séu til skoðunar innan NATO. Þar hljótum við Íslendingar að fylgjast grannt með og höfum vonandi eitthvað að segja.

Síðast en ekki síst tel ég að fundurinn á Íslandi sé veigamikið framlag okkar til Atlantshafssamstarfsins og hluti af þeirri skyldu að axla ábyrgð til jafns við önnur bandalagsríki. Á fundinum var rætt um kostnaðarskiptingu innan bandalagsins og mikilvægi þess að öll ríki leggi sanngjarnan skerf til sameiginlegs öryggis. Á tímum kalda stríðsins fólst framlag okkar til NATO einkum í legu landsins og þeirri aðstöðu sem við höfðum upp á að bjóða. Þeirri tíð lauk með brottför varnarliðsins á síðasta ári og hafa ýmsir kallað eftir umræðu um hvert framlag Íslands til NATO skuli vera. Sú umræða er kannski rétt að hefjast en ársfundurinn var þó lóð á þá vogarskál. Ég veit að við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon erum ekki sammála um hvort við eigum yfirleitt að vera að þessu „brölti“, svo að ég noti hans orðalag, en það er önnur saga. Við erum þátttakendur og það er mín skoðun að við eigum að taka þátt í starfinu af fullum krafti og leggja það af mörkum sem við getum.

Herra forseti. Minnst hefur verið á Afganistan í þessari umræðu og aðgerðir NATO þar í landi. Aðgerðirnar í Afganistan eru fyrsta aðgerðin utan Evrópu og sú langfjölmennasta í sögu bandalagsins og er í raun tákngervingur hinna miklu breytinga sem eiga sér stað í bandalaginu. Þessi mál voru líka rædd á hinu títtnefnda NATO-þingi og skoðanir skiptar um þau eins og gengur. Ég vil undirstrika að aðgerðirnar í Afganistan eru prófsteinn á getu bandalagsins til að takast á við nýja ógn og breytt öryggisumhverfi. Bandalagsríkin verða að láta þann liðsafla og útbúnað í té sem þarf til að tryggja stöðugleika til uppbyggingar í landinu svo ekki verði horfið til fyrri hátta ógnarstjórnar talibana.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði í ræðu sinni hvort eitthvað hefði áunnist. Hann vísaði þar til orða hæstv. utanríkisráðherra um að eitthvað hafi þegar áunnist þar. Ég vil nefna einn mjög áþreifanlegan árangur. Það eru menntunarmál í Afganistan. Þau mál eru ekki bara prófsteinn á framtíð NATO heldur skipta öllu máli fyrir Afgana sjálfa og vegferð þeirra. Eftir ógnarstjórn talibana, þegar fjölþjóðaherinn steypti þeim af stóli, hófu ungar stúlkur í fyrsta sinn nám í Afganistan og mér finnst það áþreifanlegur árangur þegar á síðustu árum hefur verið staðið að byggingu fleiri hundruð skóla. Fjöldi skólabarna í Afganistan frá 2001 hefur fimmfaldast og þar af eru 34% stúlkur. Þetta finnst mér mjög mikilvægt og sannfærir mig um að við þurfum að halda kúrs í þessu erfiða verkefni sem það óneitanlega er. Það er mikið í húfi í því verkefni sem NATO og aðildarríki þess vinna þarna að.

Þetta er gríðarlega erfitt verkefni en litla Ísland getur lagt sitt af mörkum og við eigum að finna okkar farveg í þeim málum og finna okkar verkefnum stað þar sem við getum best orðið að liði. Þessi umræða, hvort við eigum yfirleitt að vera að brölta þarna, svo að ég noti aftur orðalag hv. þingmanns, er ekki einskorðuð við Ísland. Hún á sér stað í öllum aðildarríkjunum, enda ekkert skrýtið. Þetta er nýtt verkefni og Afganistan er langt í burtu og kannski ekki nema von að spurt sé hvað við séum að gera þarna.

Ég tel að við eigum með friðargæslu okkar og öðrum aðferðum að leggja okkar af mörkum, rétt eins og nánustu frændþjóðir okkar í NATO, hin norræna fjölskylda, Danmörk og Noregur, hafa verið að gera. Ég tel að það sé hluti af þeirri skyldu okkar að axla ábyrgð til jafns við aðra í samfélagi þjóðanna.