135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta snýr að því sem hv. þingmaður ræddi þegar hún vitnaði til ummæla minna um Afganistan og spurningarinnar um það hvort þar væri að nást einhver umtalsverður árangur.

Ég nefndi það sérstaklega að fyrstu missirin eftir að ró virtist komast á í kjölfar innrásarinnar í Afganistan 2001 batt maður vonir við að virkilega væru að skapast forsendur fyrir uppbyggingu í landinu og einhverjum sæmilegum stöðugleika og friði. Þær vonir hafa dvínað mjög hratt að undanförnu, ég er ekki einn um þá skoðun. Í hádeginu var fundur í Norræna húsinu þar sem erlendur sérfræðingur ræddi hvort um væri að ræða tapað stríð. Sú umræða hefur verið að þyngjast í ýmsum nágrannalöndum og tengist jafnvel umræðu um að menn kveðji heim liðsafla sinn þar vegna þess að þetta sé vonlaust fúafen sem menn séu að sökkva dýpra og dýpra í.

Talibanar og hugmyndafræði þeirra er auðvitað eitthvað sem við höfum öll hina megnustu skömm á, ekki síst kvennakúguninni og því sem talibanar standa fyrir. Þar er um að ræða árekstur ólíkra menningarheima og hugmyndafræði eða trúarbragða sem er stærra mál en svo að við leysum það í stuttu andsvari.

Veruleikinn er hins vegar sá að það var ráðist á þetta fátæka land og stór hluti íbúanna upplifir hina erlendu aðila sem innrásaraðila í landið. Kenningar margra eru á lofti um að þetta séu fyrir fram dauðadæmdar og vonlausar aðstæður og að svo muni enda að NATO-liðsafli þeirra og sá liðsafli sem Bandaríkjamenn hafa á eigin forsendum í Afganistan — því að þeir treysta ekki NATO fyrir öllu saman og halda eigin her að hluta til í landinu — muni síst fara betur út úr þessum hildarleik en Rússar fóru á sínum tíma. Kannski hefðu Vesturlönd átt aðeins að velta hlutunum fyrir sér og læra af þeirri hörmungarsögu sem innrás Rússa 1979 í Afganistan varð og hefur sjálfsagt átt stærsta þáttinn í að ríða Sovétríkjunum að fullu. (Forseti hringir.) Örlög þessa lands eru dapurleg og við getum rætt þau betur við annað tækifæri en ég bendi hv. þingmanni á að lesa góðar bækur eins Flugdrekahlauparann og Bóksalann í Kabúl.