135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:24]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get upplýst að ég hef lesið Flugdrekahlauparann og að ég fer í hina um leið og tækifæri gefst.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þetta er hörmulegt ástand. Ég held að enginn dragi dul á það. Ég heyrði einmitt vitnað í þann erlenda sérfræðing sem hv. þingmaður minntist á í morgun og það vakti athygli mína sem hann sagði þar, að það skipti nefnilega miklu máli að alþjóðasamfélagið hefði úthald. Menn geta velt upp þeirri spurningu hvort þetta sé fyrir fram tapað. Hann sagði eitthvað á þá leið að al Kaída og hryðjuverkaöflin sem þarna eru á ferð biðu eftir því að alþjóðasamfélagið guggnaði á þessu, gæfist upp og hyrfi frá landinu vegna þess að þá gætu þau tekið völdin aftur.

Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að NATO-liðið sem er þarna og almenningur í þessum löndum geri sér grein fyrir því að þetta er ekki tapað nú þegar. Við verðum að vona að ef við höldum okkar kúrs náist þarna árangur. Tölurnar sem ég fór með áðan um fjölda skólabarna og þann árangur sem þar hefur náðst vekja a.m.k. vonir um að á einhverjum sviðum sé árangur að nást. Við verðum bara að halda áfram að vinna að því markmiði að koma á lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum og frelsi í þessu landi. Það er ekki auðvelt verkefni og allir gera sér grein fyrir því.