135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég ekki við hvaða tíma í fortíðinni hv. þingmaður miðar þegar hún talar um aukinn árangur í sambandi við menntasókn kvenna en það þýðir ekki að taka viðmið í þeim tíma þegar slíkt var nánast bannað. Ég held að við verðum að horfa til þess að í sögulegu samhengi var Afganistan ekki endilega verr sett meðal fjöltrúarbragðasamfélaga hvað varðaði stöðu kvenna þegar horft er lengra til baka. Örlög þessa ríkis hafa verið þau í næstum þrjá áratugi að það hefur búið við styrjaldarástand, innanríkisátök með erlendri íhlutun, fyrst af hálfu Rússa og síðan af hálfu Vesturlanda. Ég held að allt það tímabil sé í raun og veru illa samanburðarhæft til nokkurs.

Deilurnar standa að sjálfsögðu ekki um það hvort alþjóðasamfélagið eigi að reyna að aðstoða þar sem svona ástand er eða ekki, heldur um hvaða aðferðir skila árangri í þeim efnum. Ég held að sú stund hljóti að fara að renna upp í vestrænni umræðu um þessi mál að menn horfist í augu við þann veruleika að sú aðferðafræði haukanna að sprengja fyrst vanþróuð ríki aftur á steinaldarstig, eyðileggja innviði þeirra, og ætla svo að fara að byggja upp og kenna mönnum lýðræði gengur illa í framkvæmd. Um það er ástandið í Írak, Afganistan og víðar talandi dæmi.

Ég held að spurningin sé frekar þessi: Eru þær aðstæður sem NATO er læst í í Afganistan vegna forsögu málsins þannig að það verði aldrei sigrað með þeim hætti? Þarf kannski að koma málum fyrir með nýjum aðferðum, fara í nýjar viðræður, t.d. koma á friðargæslu eða alþjóðlegri aðstoð á einhverjum endurskipulögðum og nýjum grunni sem aftengir samhengið við innrásina (Forseti hringir.) og hinar pólitísku deilur og getur t.d. sett þetta í einhvern þann farveg sem gerir þeim kleift að vinna þetta með heimamönnum en ekki í jafnmikilli andstöðu við þá og raun ber vitni núna?