135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:56]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður Árni Páll Árnason sagði mig hafa neikvæð og gamaldags viðhorf en ég verð að sjálfsögðu að mótmæla því harðlega. Það eina sem ég benti á, sem er gríðarlega mikilvægt, var að allir þeir sem ætla að blanda saman viðskiptahagsmunum, viðskiptalífinu, við ákveðna stefnu sem á að byggja á samfélagslegum grunni, ábyrgum umhverfisgrunni og sjálfbærri þróun, verða að vera mjög vakandi yfir því hver reynslan hefur verið í hinum hnattvædda heimi þegar sjónarmið gróðans fá að ráða og á hvaða forsendum viðskiptalífið kemur inn í þessi mál. Það var það sem ég vakti athygli á. Fyrir þessu þarf að vera mjög vakandi ef ekki á illa að fara. Ég held því ekki fram að öllu slíku skuli henda út heldur skiptir öllu máli á hvaða forsendum þetta er gert og með hvaða hætti.

Ég vil líka aðeins koma inn á það sem var talað um varðandi ógnina og hvernig við skilgreinum öryggi í dag. Það er mjög mikilvægt atriði sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á fyrr í dag og var ítrekað hjá hv. þingmanni áðan. Stafar öryggi okkar mest ógn af Bin Laden og hryðjuverkum, Falun gong og Vítisenglum eða af umhverfisvánni, mengun og loftslagsbreytingum? Ég hef setið endalausar ráðstefnur, málþing og fundi um loftslagsbreytingar þar sem talað er um að hafa alla við borðið og ekkert gerist. Færustu vísindamenn tala, stjórnmálamenn tala og segja það sama. Ekkert gerist.

Það sem við getum helst gert er að sýna ábyrgð í verki, sýna hvernig raunverulega er hægt að fara fram með framsýni í þessum málum og gera gott. (Forseti hringir.) Fyrir brot af þeim fjármunum sem varið er í önnur mál mætti gera ýmislegt.