135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:59]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þingmaðurinn telji ekki óhugsandi að fyrirtæki komi að þróunarsamvinnunni. Ég held að mikilvægt sé að við hættum að líta á þróunarsamvinnu sem verkefni ríkisins eins. Þróunarsamvinna verður að felast í því að við hjálpum fyrirtækjunum að efla með sér félagslega ábyrgð þannig að fyrirtækin verði lifandi þátttakendur í þróunarsamvinnu. Til þess þurfum við að draga þau að borðinu þannig að þau hafi einnig hagnað af því að vinna verkefnin en axli einnig ábyrgð og byggi upp í löndunum sem þróunarsamvinnan beinist að.

Ég nefndi áðan mjög metnaðarfull verkefni sem íslensk fyrirtæki hafa verið að fitja upp á í Afríku á sviði þróunarsamvinnu. Ég held að við eigum að víkka þetta áfram út. Ég held að það sé mjög mikilvægt, m.a. vegna loftslagsbreytinganna, að ýta undir notkun á jarðvarma í þróunarríkjum. Ég tel mikilvægt að fyrirtæki séu með okkur í því og að fyrirtækin hafi af því hag. Þetta verður aldrei rekið þannig að ríkið greiði fyrirtækjunum fyrir að vera með. Þau verða að fá hagnað af því að vera með og því er ekkert til fyrirstöðu. Með þessum hætti eigum við að breiða út félagslega ábyrgð í hópi fyrirtækjanna þannig að þau skynji það sem hlutverk að byggja líka upp í löndunum. Þannig eiga allir að geta gengið saman í að efla félagslega ábyrgð fyrirtækjanna, en ekki ýta þeim frá okkur.