135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:21]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Já, frú forseti, það er bara einfaldlega mín skoðun að hinn óhefti græðgiskapítalismi nýfrjálshyggjunnar sé drifkrafturinn á bak við þróun í heiminum sem tvímælalaust gengur gegn hagsmunum umhverfisins. Tvímælalaust. Og ef sú hugmyndafræði, óheft sem slík, fengi að leika lausum hala og ekki væri hægt að koma á hana böndum þá mundi hún færa okkur í áttina frá sjálfbærri þróun en ekki í áttina til hennar.

Við getum svo sjálfsagt deilt um það lengi dags hversu sterkum böndum þarf að koma á ófreskjuna og temja hana til þess að það verði í lagi. Við erum ekki að ræða hér að það eigi að skipta um viðskiptagangverk í heild sinni og fara út í einhvern annan búskap. Það er ekki það sem ég er að tala um. (Gripið fram í.)

Ég er að tala um það að óheftur græðgiskapítalismi í anda nýfrjálshyggjuhugmyndafræðinnar, hann og hans hugmyndafræði gefur ekkert fyrir umhverfi eða félagslegar aðstæður. Hann er ekkert hugsaður þannig. Þar verða að koma til leikreglur, stýrireglur og það er ekki öðrum til að dreifa þar en stjórnmálamönnunum eða almannavaldinu í gegnum kjörna fulltrúa eða hvernig sem því er nú fyrir komið til þess að setja þessum öflum skorður þannig að þau ein ráði ekki lögum og lofum og móti heiminn og mannlegt samfélag á byggðu bóli bara að sínum þörfum, sem snúa að því að hámarka gróðann strax, og helst í gær.

Ég held að um þetta sé í sjálfu sér ekki mikið deilt. Ég hitti varla nokkurn svo harðsvíraðan kapítalista að hann viðurkenni ekki að það þurfi kannski einhverjar leikreglur til þess að þetta fari ekki allt saman illa, — nema þá ef vera skyldi hv. þingmaður en því geri ég nú engan veginn skóna.

Meira að segja forkólfarnir sjálfir sjá að þetta gengur ekki svona og umhverfisváin, (Forseti hringir.) gróðurhúsaáhrifin, loftslagsbreytingarnar eru kannski nægilega stór og skýr og einstök ógn til þess að menn viðurkenni þetta.