135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:24]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski skilningsskorti mínum um að kenna en mér finnst nokkuð erfitt að henda reiður á hvar nákvæmlega mörkin liggja hjá hv. þingmanni. Ég hef einmitt verið að tala hér lengi dags um að það sé ekki hinn óhefti græðgiskapítalismi sem eigi að skipta máli til að styðja við sjálfbæra þróun heldur frumkvæði okkar með því að draga kapitalismann til félagslegrar ábyrgðar. Ég sé enga aðra lausn í því. Ég hef talað fyrir öflugu regluverki á alþjóðavettvangi.

En það sem mér finnst hins vegar liggja svona milli orðanna hjá hv. þingmanni er að hann er ekki alveg skýr á því hvort fyrirtæki megi yfir höfuð koma að þróunarsamvinnu? Ég tel það mjög mikilvægt að þau komi að þróunarsamvinnu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þau séu lifandi hluti af samfélaginu í heild, að þau vinni verkefni til þess að byggja upp ábyrga hegðun í þróunarríkjunum, styðji við innviði þeirra. Það er nákvæmlega það sem ég hef verið að tala fyrir og fjarri því að ég hafi verið að tala fyrir óheftum kapítalisma og hv. þingmaður hefur ekki verið að hlusta ef hann heldur það.

Það sem ég held að standi hér eftir er því þetta: Ef vinstri grænir trúa því virkilega og meina það sem þeir segja þá verðum við náttúrlega að draga fyrirtækin að þróunarsamvinnu. Ríkið býr ekki til sjálfbæra þróun ef fyrirtækin eru ekki þátttakendur í því. Ef fyrirtækin á alþjóðavettvangi eru ekki þátttakendur í því að byggja upp agað atvinnulíf, vinnuvernd og félagslegt réttlæti í þróunarríkjunum, þá verður það aldrei á fót sett, því verður ekki komið á með valdboði. Það verður líka að fá samvinnu fyrirtækjanna. Þau þurfa líka að skynja að langtímahagsmunum þeirra sé best borgið með því að löndin standi í fæturna og virði félagslegt réttlæti. Í þá vegferð viljum við fara og vonandi eru vinstri grænir sammála því að við mótum stefnu í þróunarsamvinnu á þeim forsendum. (Forseti hringir.)